Einstakur nóvemberdagur á hálendinu

Í gær var farin ferð inn á hálendið í þeim tilgangi að taka handriðin af brúnni yfir Skjálfandafljót á Gæsavatnaleið en þetta er verkefni sem Gæsavatnafélagið hefur tekið að sér og annast á hverju hausti. Í leiðinni gafst kjörið tækifæri á að líta eftir snjóalögum.

Veðrið í gær var með því besta sem gerist á fjöllum. Birtan á þessumn árstíma er einnig ævintýri líkust og sannarlega ekki leiðinlegt að vera til á svona dögum. Farið var á 5 jeppum úr Eyjafirði árla morguns og sem leið liggur upp á Sprengisand um Bárðardal. Eftir að farið var frá Mýri var fremur snjólétt fyrst í stað en jókst eftir því sem ofar dró. Ekið var í Sandbúðir því sem næst eftir veginum og þaðan austur á bóginn fyrir norðan Fjórðungsvatnið. Krækt var suður fyrir hraunið og síðan beint á brúna yfir Skjálfandafljót. Á þessari leið eru snjóalög mjög efnileg, jafnfallinn snjór yfir öll sem myndi verða góður grunnur með hæfilegri hláku, bæði fyrir jeppa og sleða. Vel gekk að taka handriðin af brúnni og að því loknu var brennt í Gæsavötn. Þar var allt í góðu standi að því undanskildu að ekki hafði verið settur nægur frostlögur í klósettið sem skapaði viss vandamál þegar menn ætluðu að nýta sé þægindin. Eftir ýmsar útréttingar var ekið af stað heim á leið með viðkomu á Fjórðungsöldu. Gekk það fljótt og vel enda vanir menn á ferð.

Þá má þess geta að Jón Björns og Hreiðar í Vín brugðu sér inn á hálendið á sleða í gær. Fóru þeir upp Kerhólsöxl og brenndu inn í Landakot. Létu þeir vel af ferðinni og sögðu færið með því besta sem gerist. Heyrst hefur af fleiri Eyfirðingum sem stefna á ferðir og því virðist sem vertíðin sé sem óðum að komast í gang.

Heyrst hefur eftir ferðina…
…að það sé alltaf sól í Gæsavatnahreppi
…að Gæsavatnahreppur geti náð yfir svo stóran hluta af hálendinu sem hentar (Smára) hverju sinni
…að keppst verði um hver fær að sitja á víðförlasta stól á Íslandi sem nú er (loksins) í Gæsavtanaskála
…að framvegis muni menn athuga vel klósettið í Gæsavötnum áður en gert er stórt
…að ákveðinn blettur á lóð Gæsavatnaskála verði sérlega grænn næsta sumar
…að prufuökumaður Sleðasíðunnar sé farinn að leita fyrir sér hjá jeppaumboðunum

Meðfylgjandi myndir tóku Halldór Jónsson og Halldór Arinbjarnarson í ferðinni inn í Gæsavötn.

Leave a comment