Vel heppnuð Vetrarsport-helgi

Fjölmenni var samkvæmt venju á Vetrarsport hátíðinni á Akureyri um helgina. Árshátíðin klikkaði ekki heldur frekar en vanalega og heppnaðist helgin því frábærlega í alla staði.

Viðurkenningar

Sú hefð hefur skapast að veita viðurkenningar fyrir fallega sleða og bása og var ekki brugðið út af því nú. Fallegasti ferðasleðinn var valinn Yamaha RS Venture, sem nú kemur með nýju 3ja strokka fjórgengisvélinni. Verklegasti sleði sýningarinnar var valinn hinn nýi Polaris RMK 900 á 166 tommu belti og viðurkenningu fyrir vel útfærðan sýningarbás fékk Siggi Bald í Motul.

Fullt af nýjum sleðum

Flest umboðin lögðu mikið í sýninguna og eiga heiður skilinn. Voru dæmi um að menn væru að taka sleða með flugi til að ná þeim í tæka tíð. Hjá Arctic Cat vakti nýi M7 sleðinn skiljanlega mesta athygli og margir sem erfitt með að slíta sig frá honum. Hjá Yamaha var nýja RS-línan í aðalhlutverki, Ventue ferðasleðinn í tveimur útfærslum og einnig Rage á 136 tommu belti. Í Polaris-básnum biðu menn spenntir eftir að skoða bæði 900 Fusion og 900 RMK, báðir sérlega glæsilegir sleðar. Þá var keppnisgræjan hans Gumma Galfýrs mætt á svæðið og vakti óskipta athygli. Hjá Ski-doo var m.a. hægt að skoða hinn hrikalega nýja Summit með 1000 cc SDI vél og 16×162” tommu belti. Væntanlega fátt sem stoppar hann. Einnig var úrval MXZ og MXZ Renagade sleða, ásamt einum GSX ferðasleða.

Margt að sjá

Sýnendur voru talsvert fleiri en í fyrra og mikið líf í gangi. Haftæknibásinn fær alltaf mikla umferð og svo var einnig nú. Þórður í sjóbúðinni var með mikið úrval af vörum og gaman að hafa skotvopnadeildina með. Motulbásinn var veglegur að vanda og Ice-hobby var með gríðarlegt úrval af fjarstýrðu dóti og sýndi m.a. flug á fjarstýrðri þyrlu-inni í Höllinni! Halli í Kliptrom sá til þess að jeppadeildin fékk eitthvað fyrir sinn snúð og þannig má áfram telja. Óhætt er þó að segja að Shell hafi slegið einna mest í gegn að þessu sinni með kynningu á nýju bensínkari. Karið er í raun um 430 lítra lokaður eldsneytisgeymir og kemur útbúið með dælu sem síðan er hægt að tengja rafgeymi sleðans eða jeppans þegar dæla þarf á fjöllum. Það er ekki stærra eða þyngra en svo að það kemst auðveldlega inn í jeppakerru og margir í ferðageiranum renndu hýru auga til þessa búnaðar. Kjörið er fyrir 3-4 að taka sig saman um kaup á svona kari.

Vel lukkuð árshátíð

Árshátíðin var fjölmenn og mikið stuð á mannskapnum. Óskar Pétursson stórtenór stýrði samkomunni og sá til þess að engum leiddist. Af föstum atriðum sem allir bíða eftir er sleðaannáll G. Hjálmarssonar og fengu þar ýmsir nettar pillur samkvæmt venju og höfðu gaman af.

Stjórn og sýningarnefnd EY-LÍV er með ýmsar hugmyndir í gangi um hvernig þróa má sýninguna áfram og því er ljóst að framtíð þessarar síungu sýningar er björt.

Leave a comment