Samanburður á umsögnum prufuökumanna

Nýr í flotann

Nýr í flotann

Stærsti vélsleðavefmiðilinn í Bandaríkjunum, maximumsled.com, var að birta niðurstöður úr reynsluakstri á Ski-doo MX Z Renegade 600 HO SDI árg. 2005. Líkt og dyggum lesendum Sleðasíðunnar ætti að vera fullkunnugt um, þá er meira en mánuður liðinn frá því að Sleðasíðan tók þennan sama sleða í reynsluakstur og birti niðurstöðurnar. Má því segja að við höfum náð að skjóta stóra bróður í Bandaríkjunum ref fyrir rass og íslenskir lesendur fengu fyrstir allra að fræðast um þennan áhugaverða sleða.(Já, það er allt í lagi að monta sig smá annað slagið.)

Ritstuldur í gangi?

En áhugavert er einnig að bera saman umsagnir sérfræðinga maximumsled.com og hins skelegga prufuökumanns Sleðasíðunnar. Læðist jafnvel að manni sá grunur að hinir bandarísku starfsbræður hafi lært sitthvað af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni þegar ritsmíðar eru annars vegar.

Við skulum nú til gamans bera saman hvað menn höfðu að segja og munið að umsögn Sleðasíðunnar birtist rúmum mánuði á undan umsögn maximumsled.com.

Vélin

Sleðinn stýrir frábærlega. Takið eftir förununum eftir skíðið sem er með tveimur meiðum.

Sleðinn stýrir frábærlega. Takið eftir förununum eftir skíðið sem er með tveimur meiðum.

Sleðasíðan:
“Hvað skal segja um 600 SDI vélina? Ég var búinn að lesa að hún væri öflugasta 600 vélin á markaðinum – en hugsaði nú samt – þetta er nú bara 600. Eftir fyrsta hringinn var fyrsta hugsunin hins vegar þessi: “Þeir hljóta að hafa misst í hann 800 vél í misgripum.” Þvílík vél! Hún svarar um leið og er komið við gjöfina og sleðinn hreinlega stekkur af stað.”

Maximumsled.com:
“Á meðan við höfðum sleðann til reynsluaksturs urðum við ítrekað að fara og gá á miðann á húddinu því við hefðum getað svarið að þar undir væri eitthvað stærra en 600. Þú átt ekki í neinum erfiðleikum með að skella þessar græju í 100 mílurnar þar sem aðstæðurnar bjóða upp á hraðakstur.”

Sleðasíðan:
“Með aflinu er þó ekki nema hálf sagan sögð og varla það. Það á eftir að skrifa um sparneytnina og tæknina. Með SDI innsprautuninni var Ski-doo að koma fram með öfluga tvígengisvél sem mætti auknum kröfum um eyðslu og mengun en án þess að henni fylgdi sú auka þyngd sem er í fjórgengisvélum……Þessi 600 vél er tæknilega þróaðasta vélin frá Bombardier og þegar umtöluð fyrir litla eyðslu, bæði á bensíni og olíu.”

Maximumsled.com:
“Þessi tæknilega þróaða Rotax 2-TEC 600 SDI vél er smíðuð með það í huga að sparneytni og mengun sé sambærileg við margar fjórgengisvélar en án þess að bæta við þeirri þyngd sem þeim fylgir. Hönnun þessarar vélar er ekkert annað en hrein snilld.”

Aksturseiginleikar

REV-byggingarlagið markaði tímamót í smíði vélsleða.

REV-byggingarlagið markaði tímamót í smíði vélsleða.

Sleðasíðan:
“Ég hafði aldrei keyrt REV-sleða þegar ég settist upp á þennan og eitt af því sem mér hafði verið tjáð var að menn þyrftu nánast að læra að aka vélsleða upp á nýtt. REV-hegðaði sér svo ólíkt öðrum sleðum. Ég komst fljótlega að því að þetta á ekki við rök að styðjast. Vissulega eru hreyfingarnar aðrar en ég hef vanist en mér fannst ég orðin ágætlega hagvanur eftir tiltölulega stutta stund. Hluti af því er að aksturseiginleikarnir eru einfaldlega það góðir að þér fer strax að líka vel við sleðann. Við skulum byrja á framendanum. A-arma fjöðrunin að framan er 9,5 tommur. Hún skilar hlutverki sínu með sóma og dugar að benda á úrslit úr snjókrosskeppnum því til sönnunar. Sleðinn stýrir frábærlega og kemur þar væntanlega bæði til byggingarlag hans og skíðin, sem mér líkaði mjög vel við. Hvort skíði er með tveimur samsíða meiðum og þau svínvirka. Lykilatriði er einnig lögunin á skíðinu sjálfu, þ.e. svæðinu á milli meiðanna…..Bæði að aftan og framan er sleðinn með hina háþróuðu tvívirku HPG gasdempara.”

Maximumsled.com:
“Aksturseiginleikar og meðhöndlun Renegade 600 skipa þessum sleða í flokk með bestu aksturssleðum sem smíðaðir hafa verið. Það er aðdáunarvert hvernig samspil R.A.S. framfjöðrunarinnar og SC-3 afturfjöðrunarinnar, ásamt HPG dempurum allan hringinn, nær að slétta út allar ójöfnur á akstri og í beygjum er því líkast sem sleðinn renni á járnbrautarteinum. Jafnvægið og þyngdardreifingin er með slíkum hætti að á krókóttum leiðum skilurðu aðra sleða með hefðbundnara byggingalag eftir í snjódrífunni. Við þessar aðstæður er Renegade sannarlega fyrsti kosturinn hjá mér.”

Fjölhæfni

Sleðinn kemur standard með ágætri grind.

Sleðinn kemur standard með ágætri grind.

Sleðasíðan:
“Vandamálið sem vélsleðakaupendur standa frammi fyrir, ekki síst hérlendis, er að vélsleðar eru dýr tæki og ekki á margra færi að eiga fleiri en einn sleða til að nota við ólíkar aðstæður. Þetta hafa sleðaframleiðendur leitast við að leysa með því að bjóða upp á alhliða sleða sem nýst geta á mörgum sviðum. Gallinn við slíkar málamiðlanir getur verið sá að þá standi menn upp með sleða sem stendur sig ekki vel á neinu sviði. Hins vegar hafa svona “blendingssleðar”, sem gjarnan er einnig kallaðir millilangir með tilvísun í beltislengdina, notið mikilla vinsælda sem endurspeglar þessa þörf sleðamanna fyrir sleða sem þeir geta t.d. notað í púðri og brekkuklifri en eru samt þægilegir í venjulegum akstri. Hinn nýi MX Z Renegade er skýrt dæmi um svona sleða. Forsvarsmenn Ski-doo fullyrða að hér sé engin málamiðlun á ferðinni en hvað sem því líður er a.m.k. ljóst er að með smíði hans hefur verið stigið skrefi lengra í að búa til þennan alhliða sleða sem svo marga dreymir um. Í þessu skrefi felst m.a. að breikka beltið um eina tommu, úr 15 tommum í 16. Þannig er hægt að hafa það styttra en á “hefðbundnum” fjallasleðum, ná samt sama gripfleti og floti en með sleða sem er liprari í snúningum og þægilegri í akstri. Þannig er gripflötur Renegade 600 með 136×16 tommu belti sá sami og á 144×15 tommu beltum keppinautanna”

Maximumsled.com:
“Það er fjölhæfnin sem er sterkasta hlið þessa sleða. Hann getur tekist með sóma á við allar þær aðstæður sem þú býður honum uppá. Þar liggur helsta aðdráttarafl hans. Hann er einfaldlega einn besti alhliðasleði sem við höfum prófað….Sú staðreynd að þessi sleði var sérstaklega smíðaður til að ráða við margskonar aðstæður gerir hann einkar eftirtektarverðan og þetta eru mjög skynsamleg kaup, sama hvers konar ökumaður þú ert….Beltið sameinar flotgetu fjallasleðana og aksturseiginleika 136″ sleðana og þannig verður til seði sem er fá engan sinn líka.”

Sleðasíðan:
“Þótt ekki hafi reynt á akstur í púðri benti frammistaðan í brekkunum til þess að 800 og 900 fjallasleðarnir megi heldur betur vara sig.”

Maximumsled.com:
“Þótt Renegade sé tæknilega séð ekki fjallasleði þurfa menn ekki að hræðast að takast á við brekkurnar á honum.”

Búnaður

Flottur!

Flottur!

Sleðasíðan:
Hinn nýi Renegade er vel búinn sleði og fátt sem hægt er að sakna. Aftan við sætið er ágætt lokað geymsluhólf fyrir ýmsa smáhluti og jafnvel nesti til dagsins. Síðan kemur hann með ágætri farangursgrind sem er tilbúinn til að taka við auknum farangri. Hægt er að fá auka eldsneytisbrúsa sem ætlað er sérstakt pláss aftan við sætið og nær raunar innundir það.

Maximumsled.com:
Renegade er útbúinn með grind aftan við sætið sem gerir það að verkum að geymsluplássið er mun miera en á stuttum sleðum og einnig er rúm fyrir auka eldsneytisbrúsa. Til að auka enn á hæfnina í púðurakstri og hliðarhalla kemur sleðinn með fjalla-ól á stýrinu.

Almenn umsögn

Sleðinn vakti verðskuldaða athygli á snocrossmótini í Ólafsfirði.

Sleðinn vakti verðskuldaða athygli á snocrossmótini í Ólafsfirði.

Sleðasíðan:
“Ljóst er að Ski-doo ætlar Renegade sleðunum, og ekki síst þessum nýja 600 SDI, stórt og mikilvægt hlutverk. Vélin á að sameina kosti fjór- og tvígengisvéla, þ.e. vera létt og öflug en eyða og menga lítið. Sleðanum er ætlað að sameina kosti fjallasleða og “trail”-sleða án þess að um neina málamiðlun sé að ræða, “no-compromise sled” eins og þeir Ski-doo menn segja. Þessi tveggja daga kynni af sleðanum benda til að sú kunni einmitt að vera raunin, að tekist hafi að sameina í einum sleða marga eftirsóknarverða eiginleika.”

Maximumsled.com:
“Þegar á heildina er litið er varla hægt að finna nógu jákvæð orð til að lýsa þessum nýja sleða. Renegade hefur verið öflugur sleði en þær breytingar sem gerðar eru með 2005 árgerðinni, ásamt hinni ótúlegu 600 SDI vél, ná raunverulega að draga fram fjölhæfi og getu sleðans við hinar ýmsu ólíku aðstæður. Hann höfðar til margs konar ökumanna án þess að nokkru sé fórnað. Þegar þig vantar einn sleða sem þú getur gert allt á þá er Renegade 600 SDI hin fullkomna málamiðlun.”

Leave a comment