Nú er tími vortúrana að renna upp og þótt snjóalög á hálendinu sé í minnsta lagi er ljóst að enn er vel hægt að fara góða túra. Þannig fór hópur Eyfirðinga fína ferð í austur í Kverkfjöll um helgina og sendi Smári Sig. eftirfarandi ferðasögu.
Svona eiga vortúrar að byrja!
Eins og vænta má var túrinn afar góður og skemmtilegur. Veðrið í upphafi ferðarinnar á föstudag var reyndar ekki neitt til að hrópa fyrir, ausandi slagveðurs rigning. En svona eiga vortúrar að byrja var sagt. Heldur stytti upp er á kvöldið leið og var komin besta blíða er innar dró. Áttu menn góða næturhvíld í Laugafelli.
Strikið tekið austur
Ræst var tímanlega á laugardag og fyllt á koppa og kyrnur. Veðrið lofaði góðu og því ekki til setunnar boðið. Strikið var tekið ausur um því nú átti að reyna við Kverkfjöll. Á Fjórðungsöldu var skimað eftir leið yfir á Tungnafellsjökul. Það reyndist auðvelt og besta leiðin var að fara upp syðsta jökulfallið.
Er komið var austur fyrir Vonarskarð þurfti að þræða töluvert. Valið var að fara upp að Bárðartindi, þræða sig þaðan yfir á Rjúpnabrekkujökul og koma niður hjá Gæsahnjúk. Auðvelt og frábært færi var að renna austur með jökli. En austan við Kistufell þurfti upp á jökul aftur. Eins og menn muna hljóp jökullinn fram fyrir nokkrum árum en hann er nú orðinn ótrúleg sléttur og fínn. Það var því leikur einn að komast austur undir Jökulsá. Þá þurfti léttar æfingar til að komast heim að skála.
Komið að heitum skála
Þegar komið var í Sigurðarskála var kveikt á eldavélinni, þ.e. stóru olíuvélinni í eldhúsinu. Það hafði verið hópur í húsinu á undan okkur sem sennilega hefur verið svona hugulsamur og hlíft okkur við að kveikja upp……….? Frábært færi og mikið nýsnævi var á leið okkar í kvöldbaðið í Hveragili. Hreint út sagt frábært að sleðast um fjöllin þar og ekki var lækurinn verri.
Vindur á jökli
Á sunnudag var loksins ræst á réttum og tíma.. Fara átti upp á jökul um Kverkina eða Löngufönn, en þar var hreint út sagt brjálað veður. Mikill vindur og skafrenningur. Því var tekin stefnan á Dyngjujökul og strikið tekið beint á Kistufell og komið niður af jöklinum vestan við Fellið. Á leið okkar þvert yfir Rjúpnabrekkujökulinn var svo sterkur vindurinn ofan “Bungunni” að erfitt var að tolla á réttum kili. Það var ekki fyrr en í Snapadal að leyfi fékkst til að borða fyrri samlokuna, enda kominn löglegur morgunkaffi tími.
Heyrst hefur:
- Að G.Hjálmarsson hafi ekki þorað í túrinn, þrátt fyrir yfirlýsingarnar í sjónvarpinu
- Að Sigurgeir hafi verið í minnihluta.
- Að Smára hafi loks orðið að ósk sinni með fótaferðartíma
- Að Bjarki þurfi að fylla vasana til að þyngja sig svo hann fjúki ekki af baki
- Að formaðurinn hefur aldrei áður átt svona góðan sleða.
- Að Jón vilji bæta við einum cylinder.
- Klárt til brottferðar.
- Snjólétt í Laugafelli.
- Horft yfir sviðið frá 4.ungsöldu
- Hvíldarhlé í Snapadal.
- Kaffistopp í Gæsavötnum.
- Dyngjujökull framundan.
- Blíða í Sigurðarskála
- Fallegt í kvöldsólinni.
- Sýningaratriði
- Fyllt á koppa og kyrnur.









