Frábær helgi vestan og austan Eyjafjarðar

Nýliðin helgi stendur eftir í minningunni sem ein af betri sleðahelgum sem undirritaður man eftir. Kemur þar margt til. Veðrið var frábært, sleðafærið sömu leiðis, tækifæri gafst til að ferðast um flottustu sleðaleiðir beggja vegna Eyjafjarðar, snjókrossmótið í Ólafsfirði brást ekki frekar en við var að búast og síðast en ekki síst var Sleðasíðan með til afnota glænýjan Ski-doo MX Z Renegate 600 SDI H.O. Reynsluakstrinum sem slíkum verða gerð ítarleg skil hér á síðunni seinna í vikunni en að þessu sinni farið fljótt yfir sögu í ferðum helgarinnar.

Léttur hringur um Tröllaskaga

Á laugardeginum tóku margir daginn snemma og stormuðu út í Ólafsfjörð til að taka eina bunu áður en keppnin byrjaði. Má segja að Tröllaskaginn hafi iðað af sleðum allan daginn. Óku menn vítt um, m.a. til Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Voru þeir þannig búnir með góðan dagsskammt strax upp úr hádegi. Síðuhöfundur lét sér nægja að mæta skömmu áður en snjókrossmótið hófst og fylgdist með tilþrifunum þar. Að keppni lokinn var síðan tekinn léttur hringur í góðra vina hópi, svona rétt til að venjast nýja sleðanum.

Nú var komið að Fjörðum

Sunnudagurinn lofaði ekki síður góðu og nú var stefnan tekin út með Eyjafirði að austan. Ferðafélagar voru þeir Sigurgeir á 900 Mountain Cat og Smári Sig á RMK 800. Á Grenivík var stefnan tekin upp í fjall eftir hinum magnaða vegi sem Bjössi í Kaldbaksferðum hafði forgöngu um að gera. Er ljóst að hann er mikil bót fyrir sleðamenn þegar jafn snjólítið er á láglendi og nú. Á planinu stóð yfir viðgerð á gömlum XLT. Þótti síðuhöfundi það allmerkileg sjón, enda átti hann slíkan sleða árum saman og þurfti aldrei að hreyfa skrúfu. Þótt freistandi væri að hafa viðdvöl og fylgjast með framvindu viðgerðarinnar var brunað af stað inn Grenjárdal og áfram út Trölladal. Færið og veðrið var eins og það gerist allra best og var nú rennt í fjallaskörðin eitt af öðru. Ekki var linnt látum fyrr en staðið var á brún Keflavíkurdals. Var síðan snúið til baka og kaffistopp tekið í sólskininu á hlaðinu í Þönglabakka. Þar er ansi snjólaust í kring en þó alveg vandræðalaust að aka. Að kaffi loknu var ekið yfir í Hvalavatnsfjörð. Þar er einnig mjög snjólétt og nenntu menn ekki að vera í þræðingum þegar nægur er snjórinn hærra uppi. Var því nefinu snúið til fjalls á ný og enn fleiri brekkur sigraðar, áður en komið var aftur í bílana fyrir ofan Grenivík. Frábær dagur að baki. – Halldór

Heyrst hefur…
…að þeir sem óku með Smára og Sigurgeir fyrir hádegi á laugardaginn hafi ekki treyst sér aftur seinnipartinn
…að 600 sé alveg nóg

Myndirnar tóku síðuhöfundur, Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs.

Leave a comment