Dagur hinna löngu belta

Margir voru á ferli í Ólafsfirði og nágrenni í gær til að nota allan nýja snjóinn áður en hann færi aftur. Þeirra á meðal var Smári Sig. sem hafði vaðið fyrir neðan sig og fór í félagsskap tveggja fílefldra lögreglumanna, þeirra Hemma og Jobba. Sendi hann meðfylgjandi ferðasögu og myndir.

Púður, púður, púður

Við ætluðum að taka af á Dalvík og keyra þaðan á sleðum yfir í Ólafsfjörð. Á Dalvík var hins vegar enginn snjór svo ekið var á bílunum til Ólafsfjarðar. Þar hafði snjóað síðustu daga og allt hvítt. Brunað var af stað upp Syðriárdalinn og hvílíkt færi. Púður, púður, púður svo aka þurfti “full rör”. Greinilega margir á ferð og slóðir um allt. Eftir mikinn svita og hita komumst við upp úr dalnum og horfðum niður í Héðinsfjörð. Þá höfðu Jósavin og Robbi bæst í hópinn.

Og allir komu þeir aftur… (upp)

Eftir drykklanga kaffi- og vökvapásu var strikið tekið niður í Héðinsfjörð. Ekki fóru allir niður í dalbotn….sem betur fer því það sem eftir lifði dags fór í að koma hersingunni upp aftur. Er leið á daginn fjölgaði verulega á staðnum því margir fóru yfir til Siglufjarðar og voru á bakaleið aftur í Ólafsfjörð. Því var margmenni og margar ráðleggingar til þeirra sem ekki komust upp. Margir misbeittir ökumenn reyndu við aðra sleða enn sína eigin með þó misjöfnum árangri. Allir fóru upp að lokum , reyndar sumir í snæri. Talið er að sjaldan hafi menn misst eins mikinn vökva og þennan dag.

Leave a comment