Könnunarferð á hálendið

Margir brugðu sér á sleða á blíðunni sl. laugardag. Síðuhöfundur fór ásamt fleirum í könnunarferð inn á hálendið og reyndust bæði færi og snjóalög betri en gert var ráð fyrir í kjölfar hlýindanna undanfarið.

Fínt á Fjallinu

Farið var upp af Öxnadalsheiði og verður að segjast eins og er að Kaldbaksdalurinn er afskaplega lélegur neðantil. Snjólög eru líkari því sem eru í maí-júní í eðlilegu árferði. Þó var vandræðalaust að þræða sig fyrsta spottann og þegar kom ofar í dalinn var nægur snjór. Upp á Nýjabæjarfjalli er allt á kafi og kom skemmtilega á óvart að þó nokkuð nýsnævi var ofan á harðfenninu. Færið var hreint út sagt frábært. Brunað var inn í Laugafell með viðkomu í Litlakoti og þar tekin kaffipása. Þó nokkur snjór er í kringum Laugafell og engar þræðingar. Ýmis mál voru krufin til mergjar í kaffitímanum, m.a. tófuveiðar, snjóalög o.fl. Sýndist þar sitt hverjum.

Fínn hringur

Frá Laugafelli var ekið áleiðis að Galtabóli og þaðan í Landakot, alltaf í sama góða færinu. Frá Landakoti var stefnan tekin áleiðis í Bergland, með viðkomu á brún Eyjafjarðardals. Áð var í Berglandi og síðan tekin örugg stefna norður í Litlakot. Þar bættust Siggi Bald og Mummi Lár í hópinn og voru að koma úr fínni ferð á Bárðarbungu. Var nú greið leið til baka norður Nýjabæjarfjall og í bílana.

Tapað nesti

Ferðin var án allra stórtíðinda. Þó lenti síðuhöfundur í þeirri óskemmtilegu reynslu að flutningsaðili sem fenginn var til að geyma nesti hans reyndist ekki vandanum vaxinn. Losnaði lokið á kaffibrúsanum og drjúgur hluti innihaldsins helltist niður, sem betur fer bara í pokann hans Smára. Hafa í framhaldinu vaknað áleitnar spurningar um fjöðrunina á RMK. Meðfylgjandi myndir tóku Smári Sig og Halldór Jónsson í ferðinni.

Leave a comment