Eins og fram hefur komið var áformað að fara dagsferð í Laugafell á vegum EY-LÍV sl. laugardag. Þegar til kom þótti ráðlegra að breyta áætlun og var stefnt út á Grenivík þar sem Guðni Hermannsson (í Straumrás) tók við hópnum og leiddi um heimalendur sínar. Áttu menn þarna hreint frábæran dag. Guðni sendi bráðskemmtilega frásögn um ferðina og Alfreð Schiöth lagði til myndir.
Legið undir yfirbreiðslu á Lynx
Við hittumst við Shell á Akureyri því ferðin átti að vera, ef gæfi veður og færi, Öxnadalsheiði- Laugafell og heim aftur, en hitt til vara. Eftir að hafa legið um stund undir yfirbreiðslunni á Lynxinum ákvað Björn formaður að vegna ótryggs veðurs inná hálendinu, væri bezt að stefna hópnum í Fjörður / Flateyjardal (þar er að sjálfsögðu alltaf bezta veðrið og leiðsögn í lagi).
Lagt af stað
Farið var upp frá Grenivík á 29 sleðum en einhverjir hljóta að hafa verpt á leiðinni því að í Þönglabakka voru þeir orðnir 35. Fórum við sem leið lá upp á Grenivíkurfjall út Grenjárdal og norður á Þröskuld. Á þessum kafla tóku nokkrir úr hópnum eldsnögga bunu á Kaldbak og voru snöggir að því. Héldum síðan út Trölladal og fórum síðan inn Þverdal og yfir illræmd skörð sem reynst hafa mörgum sleðamanninum erfiður farartálmi og ýmsir þurft að snúa frá. En í þetta sinn gekk allt eins og í sögu þrátt fyrir nokkurt svell í brekkunni og eilitlar hjartsláttartruflanir örfárra ferðafélaga.
Aldrei skal ég ganga
Eftir smá stopp þarna á brúninni( nokkrir báðu um nestispásu en fengu ekki) var haldið sem leið lá yfir í Hóls- og Bakkadal og þar norður um með stefnu á hið gamla höfuðból og prestssetur Þönglabakka. Þegar komið var útá láglendið kom í ljós að mestallur snjór var horfinn og hafði fararstjórinn töluvert mikið fyrir því að þræða skorninga vítt og breitt um hið heimsfræga tún Þönglabakkastaðar, (en það nefnilega er túnið sem kötturinn fótbraut sig á hérna um árið) því eins og sönnum sleðamönnum sæmir dugir ekki að ganga þegar hægt er að keyra. Gátum við að lokum eftir nokkra fyrirhöfn lagt sleðunum hérumbil alveg við húsvegginn.
Sást til Noregs?
Eftir langa og langþráða nestispásu og frægðarsögustund héldum við áfram suður og yfir höfðann og var býsna hlykkjótt leiðin kringum þúfnastykki og framhjá grjóti og drullu en allt hafðist það nú samt. Ókum síðan suður hlíðina ofan við Tindriðastaði, Kussungstaði og Þverá og tókum næst hús á Gili. Þar var áð um stund, enda ýmsir orðnir svangir aftur. Frá Gili fórum við suður Tungur og yfir Hávörður og austur um Leirdal skammt norðan við Gljúfurárvað og þaðan beint á ská yfir í Heiðarhús á Flateyjardalsheiði. Þar var enn sest að snæðingi um stund. Síðan hélt hluti hópsins heim á leið um Bakkaheiði til Grenivíkur en aðrir fóru upp í skarðið ofan við Náttfaravíkina. Þar var útsýn víð og fagurt um að litast. Taldi einn ferðafélagi sig sjá alveg til Noregs en flestir voru nú á því að um Húsavík væri að ræða.
- Við Heiðarhús.
- Við Heiðarhús.
- …og spáð í næsta legg.
- Spjallað…
- Heiðarhús á Flateyjardalsheiði.
- Enn við Gil.
- Gil.
- Áð á Gili.
- Sér út Hvalavatnsfjörð.
- Þræðingar í Hvalavatnsfirði.
- Hvalavatnsfjörður og Bjarnarfjall.
- Og borðað meira nesti. á Þönglabakka.
- Sagðar gamlar frægðarsögur.
- Nesti á Þönglabakka.
- Þræðingar í Þorgeirsfirði.
- Allir komnir upp á leið yfir hin illræmdu skörð úr Þverdal.
- Liðskönnun.
















