Laugardaginn 14. febrúar sl. fóru sjö ferðafélagar á sex sleðum af stað frá Stöng í Mývatnssveit áleiðis í skála Ferðafélags Akureyrar, Bræðrafell sem stendur austan við Kollóttudyngju. Jakob Kárason er skálavörður þessa skála og vart mun finnast skáli á fjöllum sem betur er útbúin en þessi skáli þótt hann sé ekki stór. Steini Pje sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.
Á fimmtudegi var hringt í Skútustaði og þá var sagt gott sleðafæri og hægt að komast suður með Bláfjalli og var það ætlun hópsins að fara þaðan. Þegar Mývatssveitin blasti við var ljóst að mikinn snjó hafði tekið upp og ekki fært að fara þá leið. Því var ekið að Stöng og haldið þaðan. Ferðafélagarnir hafa áður eldað grátt silfur við Kráku sem er bergvatnsá sem kemur undan hrauninu sunnan Sellandafjalls og sjaldnast hægt að komast yfir hana á snjó. Því urðum við að aka suður fyrir upptök Kráku og þaðan til norðurs í átt að Sellandafjalli, austur að Bláfjalli og þaðan til austurs. Ef ég man rétt er sagt að tröllkerling, Kráka sem bjó í Sellandafjalli hafi reiðst er smalastrákur sem hún hafði rænt og haft hjá sér í hellinum strauk frá henni, og þá tekið upp hrísvönd og dregið niður rás þá er áin nú rennur í og sagt að áin mundi alltaf verða til bölvunnar. Þetta var því verulegur krókur fyrir okkur ferðafélaganna og er við komum að Hvammsfjöllum var orðið myrkur og ógerlegt að þræða gegn um hraunið. Auk þess voru viðsjárverðar bleytur og ein slík nægði fyrir skálavörðinn til að festa fákinn sinn. Því var snúið frá og hringt í Svartárkot og pöntuð gisting en hjónin í Svartárkoti hafa komið upp góðum bústað og frábært var að gista hjá þeim.
Sunnudagsmorguninn heilsaði með góðu veðri og fylgdi Tryggvi bóndi okkur norður fyrir Grjótá, en nægur snjór var milli Svartárkots og Stangar ef farið er nægilega vestarlega. Að sjá var nægur snjór í Dyngjuföllum og frá Svartárkoti er frábært að fara dagferð um það svæði. Vil því benda á þessa góðu gistingu. Þeir sem ferðina fóru voru, greinarhöfundur Steini Pje, Gunnar Helgason, Vilhelm Ágústsson, Jakob Kárason, Kristján Grant, Hólmar (tengdasonur Stjána) og sonarsonur Steina, Ísak Már 11 frá Hjalla í Reykjadal.
- Fallegur sunnudagsmorgun í Svartárkoti.
- Ískak Már 11 ára sonarsonur Steina klár í slaginn.
- Í Svartátkoti hefur verið komið upp bústað sem upplagt er fyrir sleðafólk að panta gistingu í enda liggja þaðan sleðaleiðir til allra átta.
- Villi kátur, enda kominn í heita pottinn á Hjalla í Reykjadal.



