Arctic Cat kynnir 2005 árgerðina

Nýja M-línan er stærsta nýjungin frá Arctic Cat fyrir næsta tímabil.

Nýja M-línan er stærsta nýjungin frá Arctic Cat fyrir næsta tímabil.

Eins og við var að búast er ýmislegt áhugavert að finna í 2005 línunni frá Arctic Cat sem kynnt var í gær. Mesta athygli vekur að sjálfsögðu nýja fjallasleðalínan, sem nú heitir einfaldlega M, en það er líka ýmislegt annað spennandi að gerast.

Segja má að framleiðslulínan hafi verið einfölduð nokkuð frá því í fyrra og sleðum fækkað. Þannig heyrir 800 mótorinn sögunni til, þar á meðal Pantera EFI ferðasleðinn sem einhverjir munu eflaust sakana. Áhugavert er að sjá nýja ACT drifbúnaðinn koma í fleiri sleða, nýja gerð af FOX framdempara þar sem loftþrýstingur kemur í stað gorms og hljóðeinangrun hefur verið aukin þannig að minni hávaði berst frá vélinni. Er Arctic Cat mér vitanlega eini framleiðandinn sem sett hefur upp sérstaka rannsóknarstofu þar sem skipulega er unnið í því að draga sem mest úr hávaða frá vélsleðum.

Firecat kemur með ýmsum endurbótum. Góður sleði gerður enn betr.

Firecat kemur með ýmsum endurbótum. Góður sleði gerður enn betr.

Sportsleðar
Firecat sleðarnir hafa sannarlega slegið í gegn hjá Arctic Cat. Þar fer saman létt boddý, góð fjöðrun og frábærar vélar. Endurbætur á næsta ári miða að því að koma fram með enn léttari og öflugri sleða. Nýja ACT-drifið, nýja hljóðeinangrunin, nýtt sæti og nýr afturöxull með þremur búkkahjólum í stað tveggja áður eru meðal endurbóta. Í vélarsalnum er allt að mestu óbreytt, enda af hverju að breyta því sem er frábært. Áhugaverðastar eru 600 EFI og 700 með blöndungum eða EFI. Sögusagnir um nýjan 800 mótor í Firecat boddýinu áttu því miður ekki við rök að styðjast. Hægt er að fá bæði 128 og 144 tommu löng belti en þau eru sem kunnugt er 13,5 tommu breið eða heldur mjórri en hjá flestum öðrum. ZR 900 og ZR 900 EFI koma báðir að mestu óbreyttir. Vélin skilar um 150 hestöflum og boddíið er hið sama og í fyrra, enda passar þessi vél ekki í Firecat-boddíið.

Nýja M-línan
Nýja M-fjallasleðalínan er ný útfærsla á Firecat boddíinu. Sleðarnir eru allt að 15 kg léttari en gamla Mountaincat boddíið-M1. Sleðanir koma á 15 tommu breiðu belti, í stað 13,5 tommu á Firecat. Loftintakið er á öðrum stað en á Firecat, eða rétt við framsljósið. Þetta hefur einnig í för með sér aðeins aðra hönnun á framstykkinu og þannig er t.d. hægt að fjarlægja hliðarnar á framskúffunni til að hafa t.d. betra aðgengi að kúplingum. Vélarnar eru þær sömu og í Firecat, eða 500, 600 og 700, og eru sleðarnir auðkenndir með M5, M6 og M7 í samræmi við það. M5 kemur með 141×1.6 tommu belti, M6 með annað hvort 141×2,25 eða 153×2.25 og M7 er hægt að fá með 141, 153 eða 162×2,25 tommu beltum. Þá má ekki gleyma King Cat 900 EFI sem kemur áfram í M1 boddíinu og á 162 tommu belti. Eins og jafnan áður er hægt að fá ýmsar sérútgáfur ef menn panta sleðana nógu snemma.

Sabercat

Sabercat

Sabercat
Sabercat er í raun Firecat í aðeins “mildari” útgáfu sem hentar betur til trail-aksturs og ferðalaga. Hann fær sömu endurbætur og Firecat og er mjög áhugaverður sleði. Sömu vélar eru í boði og í Firecat, sem og beltislengdir. Þessi sleði er hins vegar með ýmsan aukabúnað til að gera aksturinn enn þægilegri.

Ferðasleðar
Það er helst í ferðageiranum sem Arctic Cat er ekki að breyta miklu þetta árið. Nú heyrir Pantera 800 EFI sögunni til en áherslan er á T660 Turbo ST fjórgengissleðann. Hann er sannarlega meðal áhugaverðustu valkostanna í fjórgengisflórunni og vert að gefa honum auga. Með 2005 árgerðinni fær sleðinn ýmislegt af þeim útbúnaði sem áður var á ZR-sleðunum og er því enn betur búinn en áður. Fagurrauður liturinn og krómað gler ætti líka að tryggja næga athygli hvar sem er. Einnig er ferðasleði með 600 EFI tvígengisvél í boði.

Leave a comment