Um síðustu helgi fékk Sleðasíðan afhentan Yamaha RX-1 frá Toyota á Akureyri til reynsluaksturs. Sleðinn var prófaður við ýmsar aðstæður í þrjá daga og nú liggur niðurstaðan fyrir.
Sprengja síðasta árs
Þegar sleðaframleiðendur voru fyrir réttum tveimur árum að keppast við að kynna 2003 árgerðina litu ýmsir áhugaverðir sleðar dagsins ljós. Við skulum muna að þetta var árið sem Ski-doo kom með REV á almennan markað og Arctic Cat með Firect, hvoru tveggja sleða sem hlotið hafa verðskuldaða athygli og lof. Einnig kynnti Arctic Cat tveggja strokka 900 vélina á þessum tíma. Enginn þessara sleða varð þó þess heiðurs aðnjótandi að hljóta nafnbótina “Sleði ársins” hjá hinu virta tímariti Snow Goer. Sá titill var þegar frátekinn fyrir eina mestu sprengju sem komið hefur inn á vélsleðamarkaðinn hin síðari ár, RX-1 frá Yamaha.
Sleði fyrir íslenskar aðstæður?
Með RX-1 gerði Yamha það sem ýmsir höfðu spáð að myndi ekki verða raunveruleiki fyrr en eftir mörg ár. Þeir komu fram með fullskapaðan fjórgengissleða, sambærilegan að afli við öflugustu tvígengissleða og innan þeirra þyngdarmarka sem hljóta að teljast vel ásættanleg. Með því er þó á engan hátt verið að draga úr þeirri staðreynd að RX-1 er þungur sleði í samanburði við þá tveggja strokka tvígengislínu sem verið hefur nær allsráðandi hjá öðrum sleðaframleiðendum síðustu ár. En er RX-1 sleði fyrir íslenskar aðstæður? Eða er þetta einfaldlega nökkvaþungt skrímsli með vonlausa aksturseiginleika? Fyrir milligöngu Toyota á Akureyri, umboðsaðila Yamaha, var ákveðið að Sleðasíðan tæki RX-1 til reynsluaksturs og freistaði þess að dæma hvers konar sleði væri hér á ferðinni.
Byrjað var á stuttum sleða á 121 tommu belti. Undirritaður hafði sleðann til afnota um síðustu helgi og verður sú reynsla tíunduð hér á eftir. Á föstudaginn og laugardaginn var tíminn notaður til að fara stutta spretti og en á sunnudaginn var farið upp á Vaðlaheiði til að fá reynslu af notkun sleðans í lengri akstri. Næst er röðin síðan komin að RX-1 á 151 tommu belti og verður fróðlegt að fá samanburðinn þegar þar að kemur. Meðfylgjandi myndir tóku greinarhöfundur og Sævar Sigurðsson.
Einstök vél
Kynning Yamaha á RX-1 kom nánast eins og þruma úr heiðskíru lofti því ótrúlega lítið hafði lekið út um áformin. Það sem Yamhaha gerði var að taka vélina úr hinu vinsæla R1 mótorhjóli og laga hana að notkun í sleða. Þetta er fjögurra strokka 998 cc línuvél með fimm ventlum á hverjum strokk og fjórir 37 mm blöndungar sjá um að fæða græjuna þannig að öll 145+ hestöflin fái notið sín. Eitt af þeim vandamálum sem menn sáu fyrir sér var að vélsleðakúpling myndi aldrei virka á þeim snúningshraða sem litlar en kraftmiklar fjórgengisvélar þurfa. Þetta leysir Yamaha snilldarlega með einföldum niðurgírunarbúnaði. Útkoman er einstök vél, gríðarlega aflmikil en mun sparneytnari en sambærilegar tvígengisvélar. Yamhaha gefur upp allt að 30% minni eyðslu en sambærileg tvígengisvél og prófanir Maximumsled.com hafa staðfest þær tölur. Bara hljóðið eitt ætti að duga til þess að hrífa hvern þann með sér sem á heyrir. Gangur vélarinnar er líka ansi mikið öðruvísi en í stóru tvígengissleggjunum. Engin nístandi víbringur, aðeins lágvært suð sem breytist í hávært urr þegar komið er við gjöfina.
Þessi stóra vél gerir það að verkum að RX-1 er engin léttavara. Hins vegar finnst ótrúlega lítið fyrir þyngdinni í öllum venjulegum akstri. Vélinni er komið fyrir eins neðarlega og hægt er og leitast við að sem mest af þyngdinni sem styst frá driföxlinum og ökumanninum. Í hefðbundnum “trail”-akstri virkar RX-1 ekkert þyngri en “hefðbundnir” stuttir sleðar, nema síður sé. Það er fyrst og fremst þegar þú festir þig að öll 300 kílóin verða að veruleika. Hins vegar er vélarorkan af þeirri stærðargráðu að festur eru eitthvað sem ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af. Þá má minna á að sleðinn hefur verið léttur verulega frá fyrstu árgerðinni og mun þannig léttast um heil 15 kg á næsta ári.
Áseta
Eitt af því sem mér finnst skipta miklu máli við vélsleða er hvernig mér finnst að sitja á honum og hvernig afstaðan á milli sætis og stýris kemur út. Það er alveg sama hvort menn hugsa notkun sleðans fyrir styttri eða lengri ferðir, góð áseta er lykilatriði, ásamt því að þægilegt sé að standa þegar það á við. Í þeim efnum er erfitt að búa til einn sleða sem hentar öllum. Ég verð að setja að fyrir minn smekk er ásetan á RX-1 í hæsta gæðaflokki. Sætið er hæfilega stíft og vel lagað og útsýni á mælana mjög gott. Stýrið sjálft mætti þó að skaðlausu vera bæði hærra og jafnvel breiðara. Með hærra stýri væri auðveldara að ráða við sleðann í hliðarhalla og skáskera brekkur. Það kostar þó nokkur átök að rífa sleðann upp á annað skíðið og örugglega betra að ökumaðurinn sé sæmilega vel á sig kominn.
Aksturseiginleikar
Ég verð að viðurkenna að ég hafði vissar efasemdir um RX-1 áður en ég fékk hann til prófunar. Ég þóttist vita að vélin væri frábær en hafði áhyggjur af aksturseiginleikunum út af þyngdinni. Þú ert hins vegar ekki búinn að nota svona sleða lengi þegar slíkar efasemdir eru foknar út í veður og vind. Það sem kom mér mest á óvart er hversu léttur og meðfærilegur sleðinn í raun virkar. Hann beygir vel og lætur að flestu leyti vel að stjórn. Helsti gallinn er að þú verður að hafa varann á þér í kröppum beygjum. Innra skíðið vill fara á loft og jafnvel ber á að sleðinn skriki út undan sér. Þarna kemur þyngdin án efa til sögunnar en þetta kann að vera hægt að leysa með því að stilla fjöðrunina betur. T.d. má hugsa sér að láta sleðann standa betur í skíðin en þá verður að hafa í huga að hann þyngist væntanlega í stýri að sama skapi og einnig er spurning hver áhrifin verða á afturfjöðrunina.
Ég gerði reyndar engar sérstakat tilraunir með mismunandi uppsetningu á fjöðrun.Heilt yfir fannst mér sleðinn vel upp settur og hef raunar alla tíð verið ágætlega sáttur við Pro Action afturfjöðrunina frá Yamaha. Hún hefur reyndar ekki þróast mikið í gegnum árin en eins og fram hefur komið verða verulegar breytingar á henni frá og með 2005 árgerðinni. Þetta er ágætlega burðarmikil fjöðrun, stendur sig mjög vel á meðan ekki er mjög óslétt færi, en á virkilegum karga eru aðrar útfærslur betri. Galli við þá Yamaha sleða sem ég hef haft kynni af hefur verið óþarflega mikið slit á meiðum og ekki er ég frá því að RX-1 geti verið sama marki brenndur. A.m.k. þóttist ég nokkrum sinnum finna smá plastlykt ef færið var hart. Engin hitavandamál voru hins vegar með vélina þótt inn á milli kæmu kaflar með lítilli kælingu.
Nýtur sín vel í hraðakstri
Best nýtur RX-1 sín venjulegum “trail”-akstri. Þannig er líka sennilega bróðurparturinn af öllum akstri sleðamanna. Og hraðinn er ekki vandamál. Eftir því sem hraðar var ekið, eftir því naut sleðinn sín betur. Upp á Vaðlaheiði gafst kostur á að gefa duglega í. Færið var talsvert rifið á köflum en það var svo sannarlega ekki vandamál. Þótt mælirinn sýndi vel yfir 100 km hraða haggaðist maður ekki á sætinu. Framfjöðrunin stóð sig frábærlega og ég fullyrði að ég hef engan sleða keyrt sem lætur jafn vel af stjórn á mikilli ferð. Við þessar aðstæður fannst mér sleðinn njóta sín hvað best og skapaði tilfinningu sem ég hef ekki áður notið á 30 ára sleðaferli. Ég viðurkenni fúslega að vera frekar huglaus þegar kemur að hraðakstri á vélsleða en á RX-1 fannst mér allir vegir vera færir.
Hliðarhalli – brekkur – púður
Vert er að hafa á hreinu að RX-1 er ekki besti púðursleðinn eða fjallaklifrarinn á markaðinum, enda ekki ætlað að vera það. Þetta á auðvitað ekki síst við um stutta sleðann sem prófaður var að þessu sinni. Mín upplifun af sleðanum er hins vegar sú að hann sé vel meðfærilegur í hliðarhalla og á meðan hann hefur spyrnu klifrar hann endalaust upp brekkur. Stutta beltið hentar ekki í púðursnjó, frekar en hjá öðrum stuttum sleðum, en mér fannst hann samt ótrúlega duglegur. Gríðarlega spennandi ferð upp Geldingsárgilið í Vaðlaheiði, í miklum lausasnjó, var einn af hápunktum helgarinnar en fékk snöggan og sorglegan endi þegar ökumaðurinn fipaðist eitt augnablik í þröngum skorningi. Þá var gott að skóflan var með í för.
Útlit og frágangur
Útlit er eitthvað sem menn verða aldrei sammála um. Einnig getur smekkur manns breyst. Mér fannst t.d. Firecat til að byrja með einhver ljótasti sleði sem ég hafði séð. Nú, tveimur árum seinna, finnst mér hann einhver sá fallegasti á markaðinum. Mér hefur hins vegar frá upphafi þótt RX-1 hreint ótrúlega flottur og það álit dofnaði ekki við að prófa gripinn. Það er helst að manni finnist hlutföllin í stutta sleðanum svolítið skrítin. Að framendinn beri það sem fyrir aftan er hálfgerðu ofurliði. En hér ræður smekkur hvers og eins. Rúðan er ágætlega heppnuð en mætti þó fyrir minn smekk vera aðeins breiðari. Mér fannst gusta heldur mikið um hendurnar. Sleðinn er til í nokkrum litasamsetningum en sá sem undirritaður hafði til afnota var svartur. Yfireitt finnst mér það svona frekar óspennandi útfærsla en fer þessum sleða hins vegar ágætlega. Sigbrettin líkaði mér ágætlega við, þótt svona 1 tommu breikkun myndi ekki skemma fyrir.
Yamaha hefur alla haft orð á sér fyrir vandaðan frágang og þar er RX-1 engin undantekning. Það er hrein unun að sjá hversu allt virðist vandað og vel hugsað. Digital mælaborðið er ótrúlega “kúl” ásamt því að virka vel. Hitastilling fyrir handföng og bensíngjöf er stiglaus og vel fyrir komið sitt hvoru megin á stýrinu. Takki til að hækka og lækka ljós er einnig vel staðsettur og ljósið sjálft er mjög gott. Hái geislinn lýsir vel framfyrir sleðann og ef ljósin eru lækkuð fæst mjórri og lægri geisli sem ætti að nýtast vel ef keyra þarf í vondu veðri.
Flott en pirrandi
Útfærsla á púströrunum er ótrúlega flott en á sama tíma dálítið pirrandi. Þegar þú t.d. setur sleðann í gang á morgnanna eftir að hann hefur staðið úti þá þarftu að lofa honum að ganga í smá stund. Þú vilt hins vegar nota tímann til að losa aðeins um sleðann, lyfta honum upp að aftan og láta hann detta niður til að losa um klaka í beltinu. Á RX-1 færðu hins vegar pústið beint í andlitið við þessa athöfn. Stærsti ókostur þessa fyrirkomulags með púströrin er hins vegar alger skortur á farangursrými. Þú getur ekki tekið með þér nesti til dagsins nema þá að fá þér tanktösku eða aðra lausa hirslu sem þú hengir utan á sleðann. Fyrir þá sem stunda langferðir skapa púströrin einnig vandamál upp á farangursgindur. Þetta munu þó íslenskir hugvitsmenn vera búnir að leysa og hefur undirritaður t.d. heyrt að Sigurjón Hannesson “Breikkarinn” hafi hannað útfærslu sem virki vel.
Fyrir hverja?
Ýmsar efasemdarraddir hafa heyrst um ágæti RX-1. Eftir að hafa sjálfur reynt hann get ég með góðri samvisku sagt að fæstar þær sögur eiga við rök að styðjast. Enda koma örugglega flestar sögurnar frá mönnum sem ekki hafa prófað gripinn. Það er einfaldlega mjög erfitt að finna neikvæða hluti til að segja um RX-1.
Í heildina líkaði mér frábærlega vel við sleðann þótt alltaf megi finna eitthvað til að setja útá. Það eru til sleðar sem standa sig mjög vel á tilteknu sviði og myndu þ.a.l. þar standa sig betur á því en RX-1. Hins vegar hef ég trú á að þessi sleði ætti að geta hentað mjög stórum hópi sleðamanna því hann er að gera marga hluti mjög vel. Nóg afl, góð áseta, góðir alhliða aksturseiginleikar og vönduð smíði er eitthvað sem ég held að margir séu að sækjast eftir. Flott útlit og 30% minni eyðsla en félaginn á tvígengissleðanum ætti heldur ekki að skemma fyrir. Fyrir þá sem stunda langferðir um hálendið er sleði sem þessi augljós kostur og í raun undarlegt að ekki skuli fleiri hafa valið þessa leið. Ég er hins vegar sannfærður um að þeim mun fjölga.
Að lokum
Eins og fram hefur komið hér á síðunni mun Yamaha leggja aukna áherslu á fjórgengistæknina á næsta tímabili og ætlar greinilega að veðja á hana. Á þessu hafa menn mismunandi skoðanir eins og gengur. Ég segi hins vegar: Frábært! Þó ekki nema fyrir það eitt að ekki séu allir framleiðendur að matreiða sama grautinn í svipuðum skálum. Yamaha sýndi okkur með RX-1 að fjórgengistæknin er og verður alvöru valkostur í sleðum. Fyrir að vilja, þora, geta og gera fær Yamaha mitt atkvæði.
Texti: Halldór Myndir: Halldór og Sævar Sig.
Plúsar:
Yfirdrifið vélarafl
Einstakt “sound”
Áseta
Stöðugleiki í akstri
Frágangur
Aðalljós
Mínusar:
Skortur á farngurshólfi
Lyftir skíðunum heldur mikið í beygjum
Stýrið mætti vera hærra
- RX1- í aksjón.
- Það er vissulega hægt að festa þennan sleða eins og alla aðra.
- RX-1 er glæsilegur útlits.
- Innra skíðið vill fara á loft í beygjum.
- Það er hrein unun að bruna um á þessum sleða.
- Tveir kynslóðir af Yamaha.
- Séð undir sleðann að framan.
- Vélin er einstök í sinni röð.
- Allur frágangur er fyrsta flokks.
- Flott útfærsla en krefst nýrrar hugsunar við að koma fyrir farangursgrind.
- Framfjöðrunin kom vel út þótt hún sé ekki sú lengsta í bransanum.
- Þetta er sleði sem fer mjög vel með mann í öllum venjulegum akstri.
- Á leið upp úr Gönguskörðum.












