Fimm nýir sleðar með nýrri fjórgengisvél og alls níu sleðar með fjórgengisvél, fimm útfærslur af nýrri afturfjöðrun og allt að 15 kg léttari RX-1. Þetta eru hápunktarnir í 2005 línunni af Yamaha sem kynnt var með stæl í gær.
Ljóst er að Yamaha er að veðja á fjórgengistæknina og hefur þar náð verulegu forskoti á aðra framleiðendur. Spurningin er hvað aðrir gera – ná þeir að þróa tvígengisvélar sem uppfylla væntanlegar mengunarreglugerðir eða hella þeir sér af krafti í fjórgengisslaginn. Það verður tíminn að leiða í ljós. Sem stendur er Yamaha í nokkurskonar sérdeild, úrvalsdeild mundu sumir segja – og með góðum rökum, á meðan aðrir hafa eflaust aðrar skoðanir á þeim bláu.
Yfirlit um það helsta
Sem fyrr segir koma fimm nýir sleðar sem allir skarta sömu vélinni, nýrri þriggja stokka fjórgengisvél. Að rúmtaki er hún svipuð og fjögurra strokka vélin í RX-1, eða 973 cc. Aflið er rétt um 120 hö eða svipað og hjá sleðum með 600 tvígengisvél. Þar er þessum sleða enda ætlað að keppa, á hinum stóra markaði fyrir 600 sleða í Bandaríkjunum og reiknar Yamaha með að ná dágóðri sneið af þeirri köku. Sleðarnir sem um ræðir nefnast RS Vector, RS Vector ER, RS Vector Mountain, RS Rage og RS Venture.
RX-1 er áfram í boði í sömu útfærslum, þ.e. stuttur RX-1, RX-1 ER, RX Warrior og RX-1 Mountain. Allir koma þó verulega endurbættir og léttari en í fyrra.
Aðeins fimm sleðar með tvígengisvél eru nú í framleiðslulínu Yamaha. Þar má helst nefna SXViper Mountain sem kemur á nýrri gerð af skíðum og nýrri afturfjöðrun. Þeir sleðar sem nú heyra sögunni til frá því í fyrra eru stuttur SXViper, Mountain Max 700 og Venture 700.
