Glerárdalurinn kannaður

Fjölmargir drifu sig á sleða um helgina, enda menn orðnir spenntir að skoða allan snjóinn sem bæst hefur við síðustu daga. Í Glerárdalnum ofan Akureyrar var mikil sleðaumferð og sendi Halldór Jónsson eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Polaris af ýmsum gerðum

Það varð nú ekki hjá því komist að skoða snjóalög í næsta nágrenni Akureyrar þegar smá hlé varð á snjókomunni og vel viðraði. Við skelltum okkur fimm félagar í sunnudagsskoðunarferð í gær, 18. janúar, á Glerárdalinn. Þeir sem fóru voru. Benedikt á Bílvirkja á Polaris Indy 600 Touring, Guðlaugur Már (strákurinn Gulli) á Polaris 440, Sigurgeir í Vélsmiðjunni á Polaris XC 600, Smári á nýju græjunni Polaris RMK 800 og undirritaður á Polaris Classic Touring ofurfimmunni sem reyndar er með 700 vél með meiru. Þetta var sem sagt töluverð blanda, bæði manna og sleða, þótt sleðategundin hafi bara verið Polaris.

Hæfilega langt og gróft

Veðrið var gott, sérstaklega framan af, en skyggni varð lélegt þegar kom fram á seinni hluta dagsins fyrir myrkur. Færið var hins vegar frábært; mikill púðursnjór en það verður nú að viðurkennast að erfitt var það stundum fyrir nokkra í hópnum. Það leyndi sér ekki að gott var að hafa hæfilega langt og gróft belti og ekki spillti fyrir að vélarstærðin væri í efri flokknum og hestöflin 130 til 150. Svo var auðvitað líka gott að þyngdin á sleða og manni væri hæfileg. Hæfilegt er auðvitað teygjanlegt og gildir ekki það sama um alla. Gott reyndist að hafa einn ungan og hraustan til að koma sumum sleðunum upp erfiðustu brekkurnar. Skrýtið hvað þeir láta betur að stjórn og komast meira hjá sumum; eða kannski er það bara ekkert skrýtið!

Fjallabak til baka

Þrömin reyndist flestum erfið svo fara varð “fjallabak” til baka. Ekki var það átakslaust en allt hafðist farsællega að lokum. Á heimleiðinni var stoppað við Lamba og seinna kaffið og kakóið drukkið og reynt að tæma nestisboxin. Tókst það hjá sumum en ekki öllum. Undirritaður mun því keppast við að tæma nestisboxið næstu daga þannig að það verði tilbúið fyrir nýja áfyllingu í vikulokin. Ekki er ólíklegt að fararskjótinn verði þá nýr Polaris, með 800 vél, 155 hestöfl, gróft 144″ belti og þyngd sleðans verði í neðri kantinum. Þá er eins gott að ökumaðurinn standi sig, því ekki verður sleðanum um kennt, ef strandað verður í miðri brekku á sama tíma og aðrir komast á toppinn. Það voru þreyttir en ánægðir ferðafélagar sem skiluðu sér heim aftur síðla dags.

Leave a comment