Smári Sig. fór ásamt fleirum á jeppa inn í Gæsavötn um helgina. Að hans sögn er lítill snjór þar í kring og ekki hægt að komast á jökul upp frá Gæsavötnum. Farið var upp Bárðardal og að sögn Smára var ansi gaman að keyra frá Fossgilsmosum í Laugafell, töluvert púður og þungt færi. Frá Laugafelli er ansi rýrt að sjá til vesturs. Færið frá Laugafelli var hart og austur fyrir Bergvatnskvíslina er bara fínn snjór. Mjög rifið og autt er að sjá norðan undir Tungnafellsjökli. Komið var við hjá gígnum Bokka, sem væntanlega er ekki mikill ferðamannastaður alla jafna, en vert er að sögn Smára að kíkja á hann á veturna þegar hægt er að komast að honum.
Sem fyrr er enginn snjór í Gæsavötnum nema rétt í kringum hurðina á skálanum. Sökum snjóleysis er ekki hægt að fara á jökul við Gæsavötn. Þar er ekki kominn nægur snjór í jökulgarðana og ruðningana sem yfirleitt fyllast að vetri. Eina ráðið er að fara upp hjá Kistufelli eða Köldukvíslarjökulinn. Smári og félagar fóru inn á jökul við Kistufell. Það var mjög fínt og færið á jöklinum flott – púður yfir öllu. Meðfylgjandi myndir tók Smári í ferðinni.
- Við gíginn Bokka.
- Þennan stað er vert að skoða í góðu tómi.
- Mokað frá Gæsavötnum.
- Falleg vetrarbirta.



