Norðanmenn kíkja upp

...og komst meira að segja uppúr aftur.

Smári á góðri stundu (á Yammanum).

Í gær kíktu þeir Hreiðar í Vín, Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs á hálendið upp af Eyjafirði. Sendi Smári eftirfarandi frásögn af ferðinni.

Það var varla farið að skíma af degi þegar formaðurinn hringdi og sagði að nú ætti að drífa sig. Vertíðin byrjar vel, hann fullbeittur, ákveðinn og varla að maður væri búinn með morgunkaffið. Þegar svo sást til himins kom í ljós að sólin kæmi fljótlega á loft, heiður himinn og töluvert frost.

Það stóð á endum, þegar komið var fram að Brúsahvammsbrekkunni var tekið af og allt bjart framundan. Formaðurinn lagði áherslu á að menn yrðu að vera á góðum sleðum, það væri mjög brýnt og taldi rétt að slá undir “spari” sleðanum sínum fyrir Smára Sig. Þetta gengi ekki lengur. Smári fékk því bláa RMK´inn formannsins þennan með litasjónvarpinu. Sjálfur þurfti formaðurinn endilega að rifja upp hvað svarti RMK´inn var ofboðslega góður. Sigurgeir var enn á gömlu græjunni frá í fyrra en með allt niður um sig, ekkert siglingatæki, bara festingar. Reyndi að útskýra fyrir okkur að hann væri búinn að borga inná nýtt litatæki, umboðsmaðurinn hefði vélað sig til að kaupa og borga en ekkert tæki birtist. Þegar fara átti af stað kom auðvitað í ljós að ekki var allt meðferðis, greinilegt að einhver hefur ruglað öllum sleðabúnaðinum heima í bílskúr í sumar, sennilega hefur konan eitthvað verið að endurraða. Það svona vantaði eitt og annað.

Ekki var til setunnar boðið að nýta veðrið og þetta frábæra færi sem lá fyrir. Fullbeittir var brunað inn allan Eyjafjarðardal og færið bara alveg magnað. Þegar komið var upp úr Rununni hafði veðrið skipt um gír, kominn fræsingur af suðvestan og skafrenningur, en fullt af snjó. Áfram var haldið inn fjall og heldur bætti í vindinn og skyggnið varð núll. “Ekki bogna, ekki bogna, aðeins lengra strákar,” heyrðist í formanninum. Þetta var greinilega allur pakkinn. Það var ekki fyrr en innundir Landakotsafleggjara sem samkomulag náðist um að snúa við. Enda urðu menn að ná í bæinn fyrir kvöldmat. Íþróttatíminn byrjar kl 7 og þangað verður að mæta þó ekki væri nema til að segja ferðasöguna. Það stóð á endum, að rétt náðist í bæinn fyrir íþróttatímann, með brosið út að eyrum.

Svona rétt í lokinn “hann er nú svo sem ágætur sá blái.”

Leave a comment