Þótt komið sé vel fram á sumar horfa sleðamenn enn löngunaraugum á þær fannir sem enn sjást í fjöllum. Um helgina fór hópur Eyfirðinga í fína sumarferð inn á Nýjabæjarafrétt ofan Eyjafjarðar og komst að því að víða var hægt að aka. Farið var með með sleðana á kerrum inn Eyjafjarðardal og þar var leikur einn að komast á snjó. Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.
Þeir sem fóru voru: Formaðurinn, Sigurgeir , Steindór, Jón, Dunni og Hemmi auk SS. Heldur grisjaði í gegnum snjóinn fyrstu metrana eftir veginum frá bílunum en svo kom nægur snjór og frábært færi. Stefnan tekin án vandræða í Landakot og síðan í átt að Galtabóli en ekki gekk það eftir. Náðum þó að fara langt suður fyrir Galtaból rétt fyrir austan Lambalækjardrögin. Í frábæru veðri og hlýindum var stefnan næst tekin á Bergland. Er komið var vestur fyrir Eyjafjarðardalsbotn, fóru menn að efast um að hægt væri að fara vestur að Urðarvötnunum. En með mjög einbeittum vilja formannsins var komist með léttum leik á snjó alla leið í Bergland. Að vísu mörgum krókum og beygjum síðar. Hægt var að renna alveg heim í hlað og þar settust menn að snæðingi eftir að “brytinn” galdraði fram “steik”. Langt var liðið á kvöld og kominn tími til að huga að heimferð. Var hópurinn
kominn í bæinn aftur skömmu eftir miðnætti. Fín ferð í byrjun sumars.
- Farnir að sjá snjó og bjart framundan.
- Þessi líka fíni skafl.
- Groddalegt landslag.
- Tekið af í Eyjafjarðardalsbotni.
- Hemmi að næra sig í einni af mörgum kaffipásum.
- Í Landakoti.
- Við Bleiksmýrardrög.
- Enn verið að huga að nestinu.
- Í Berglandi.
- Kokkurinn við pottana.
- Mettir eftir “steikina” hjá kokknum.










