Mögnuð kvöldferð í Laugafell

Sumir menn eru einfaldlega þrjóskari en aðrir og neita að viðurkenna að veturinn sé búinn. Síðastliðin föstudag fóru fimm garpar á sleðum frá skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli og inn í Laugafell. Gekk ferðin að óskum en væntanlega er þetta með síðustu ferðum inn á hálendið á þessu vori.

Lagt var af stað kl. 5 en hægt var að komast á snjó í gilinu sunnan við gönguhúsið í Hlíðarfjalli. Þaðan var greið leið upp á topp Hlíðarfjalls, a.m.k. fyrir þá sem höfðu belti og hestöfl til að takast á við færið en það var mjög blautt eftir hlýindi dagsins. Þurftu sumir smá hjálp síðustu brekkuna. Af Hlíðarfalli var ekin hefðbundin leið niður í Glerárdal, fram af Þröminni niður í Skjóldal og upp úr honum áleiðis inn á Nýjabæjarfjall. Þar er enn nægur snjór og frábært færi. Þegar nálgaðist Laugafell minnkaði snjórinn ört og kostaði talsverðar þræðingar að finna færa leið. Í Laugafelli var allt í góðu standi og gæsavarp hafið. Þar hafði þá enginn komið síðan 18. apríl sem segir sína sögu um ástandið í vetur. Eftir bað, kaffi og smásögur var tankað og ekin sama leið til baka. Lagt var af stað úr Laugafelli um kl. 11 og tók ferðin til baka um þrjá og hálfan tíma. Gekk hún áfallalítið en þó náði síðuhöfundur að verða bensínlaus á versta stað, í bröttu gili upp úr Heimari-Lambárdal. Allt reddaðist það þó og án efa hafa menn verið fegnir að skríða í rúmið er heim kom, ánægðir með frábæra ferð.

Í ferðina fóru Hreiðar í Vín, Smári Sig., Jón Björns., Eiríkur Jónsson og Halldór A. Meðfylgjandi myndir tóku Eiríkur, Smári og Halldór.

Leave a comment