Endalausar fréttir af skoðanakönnunum. Sömu fréttir dag eftir dag. Þessi úti í dag og hinn er inni en á morgun er allt breytt. Þá er sá sem var úti í gær kominn inn en sá sem var inni er úti. Þessi hringavitleysa minnir á vísuna góðu:
Týndur fannst en fundinn hvarf
að fundnum týndur leita þarf.
Svo týnist sá sem fundinn fer,
að finna þann sem týndur er.
Menn gripu því feginshendi tækifærið sem gafst til að eyða kosningahelginni á fjöllum, fjarri öllum skoðanakönnunum og spámönnum.
Erfiður vetur að baki
Nú er senn á enda einn erfiðasti vetur sem sleðamenn Norðanlands hafa gengið í gegnum. Ekki nóg með að snjóinn vantaði heldur var veðrið einnig lagtímum saman með þeim hætti að ekki viðraði til að nota þann snjó sem þó var á hálendinu. Það segir sína sögu að Kaldbaksdalurinn á Öxnadalsheiði skuli hafa verið orðinn nánast ófær fyrir sleða í lok apríl en þar er alla jafna trygg leið upp á hálendið fram til loka maí a.m.k. En ef að fjallið kemur ekki til Múhameðs þá fer Múhameð til fjallsins og því ekki um annað að ræða að bregða undir sig betri fætinum (eða raunar bílunum) og aka þangað sem hægt er að komast á snjó. Ákveðið var að leggja af stað frá Akureyri eftir vinnu á fimmtudaginn síðasta, aka þjóðveg 1 austur á Hérað og komast upp í Snæfell um kvöldið. Allt gekk þetta eftir þótt reyndar væru ekki alveg allir tilbúnir á uppgefnum brottfarartíma. En annað hefði líka verið óeðlilegt og þeir hinir sömu urðu bara að auka aðeins við snúninginn á (hvíta) Landkrúsernum til að ná hópnum.
Búið að loka!
Rennt var inn í Egilsstaði rétt fyrir kl. 9 um kvöldið og hugsuðu menn sér nú gott til glóðarinnar að fá sér vel að borða á Esso-stöðinni. En því miður virtust Egilsstaðabúar ekkert of áfjáðir í að eiga viðskipti við 10 svanga sleðakarla úr Eyjafirði. „Við lokum kl. 9 og erum búin að slökkva á grillinu,“ var svarið og dugðu engar fortölur. Okkur vantaði líka Billa bakara en hann hefur áður sýnt leikni sína í að tala kvenþjóðina til við svipaðar aðstæður. Í Shell-skálanum var svipað upp á teningnum, búið að loka, en þá var okkur bent á Pizza 67 handan götunnar. Þar var líka tekið á móti hópnum opnum örmum. Að vísu „villtust“ sumir inn á kosningaskrifstofu D-listans á neðri hæðinni og hafa eflaust fengið blíðar móttökur þar líka. Var nú pizzunum sporðrennt með bestu lyst og virtust sumir í hópnum ekkert of áfjáðir í að halda áfram för um kvöldið. Allir náðust þó út að lokum og var þá lagt í´ann upp Fljótsdalinn og upp úr honum, áleiðis í Snæfell. Sleðarnir voru teknir af við fyrsta skafl sem sást en þá var reyndar mjög farið að styttast í Snæfellsskála. Höfðu menn á orði að líkast til hefði aldrei liðið styttri tími frá því að allir búnaður var hnýttur á sleðana og þar til komið var á áfangastað og tími að leysa allt aftur. Í Snæfellsskála var komið um kl. 1 og mál að fara að halla sér. Að vísu var veðrið með þeim hætti að erfitt var að koma sér inn í hús og lofaði þetta góðu um næsta dag.
Breytt áætlun
Föstudagurinn brást ekki vonum manna og heilsaði bjartur og fagur en í ljós kom að menn höfðu átt misjafnar draumfarir. Til dæmis dreymdi formanninn að brotist hefði verið inn í Cortínuna sem hann átti endur fyrir löngu. Hafði þjófurinn m.a. á brott með sér geislaspilara (a.t.h. að þetta var Cortína 1966 módel) og alla mæla úr mælaborðinu. Var mikið skeggrætt hvað þessi draumur táknaði fyrir ferðina og sýndist sitt hverjum.
Að loknum hefðbundnum morgunverkum var lagt af stað inn að jökli en planið var að renna í Esjufjöll. Þar áttum við bókaða gistingu næstu nótt. Þegar komið var drjúga leið inn á jökul var hins vegar farið að þyngja yfir og ljóst þótt að ekki væri bjart sunnan til á jöklinum. Hins vegar var glansbjart að sjá norður og vestur. Því var stefnunni breytt í skyndi og snúið í átt að Kverkfjöllum. Heiti lækurinn í Hveragili togaði líka í menn og þangað var stefnt. Komið var að læknum á „hefðbundnum“ stað en nú var ákveðið að breyta út af vananum og taka bað undir fossinum sem er nokkru neðar. Þangað höfðu fæstir komið áður og reyndist þetta ævintýraferð hin mesta. Var engu líkt að skríða upp undir fossinn þar sem heitt vatnið steyptist af feiknakrafti fram af brúninni. Eftir bað og afslöppun var þrætt í gegnum Kverkfjallaranann áleiðis að Sigurðarskála. Þar var stoppað stutt og stefnan tekin áleiðis inn að jökli og upp Löngufönn. Var gaman að koma að lóninu fyrir neðan skála Jöklarannsóknafélagsins en hægt var að aka á sleðum alveg að fjöruborðinu. Nú var stýrinu snúið í átt að Sigurðarskála og eftir nokkrar umræður var ákveðið að hafa þar næturstað, enda ekki útlit fyrir að það væri að birta yfir sunnar á jöklinum. Var því gisting í Esjufjöllum afpöntuð.
Áttu menn ljúfa kvöldstund, borðuðu vel og slöppuðu af. Þegar verið var að klára uppþvottinn heyrðist í sleðum og í hlað renndi Ásbjörn Helgi Árnason, sleðagarpur frá Neskaupstað, með tvo sunnlenska meðreiðarsveina, Óskar Guðmundsson og Valdimar Long, sem báðir voru í sinni fyrstu sleðaferð.
Mílurnar rúlla inn
Á laugardagsmorgni var fínt veður í Kverkfjöllum og að sjálfsögðu var ákveðið að byrja á að renna í morgunbað í Hveragili. Lækurinn var með allra heitasta móti og tók verulega á að komast ofan í hann. Á eftir stóðu menn fáklæddir á bakkanum lengi dags á meðan mesti hitinn rauk úr þeim. Síðan var lagt í hann inn á Brúarjökul. Þótti reyndar sumum baðið fara fyrir lítið þar sem menn fengu að svitna vel strax í brekkunni upp frá læknum.
Þegar inn á jökul var komið skyldu leiðir. Ásbjörn og félagar tóku stefnuna á Hermannaskarð og þaðan niður í Esjuföll. Á meðan renndu Eyfirðingar niður að Hnútulóni, þar sem Kverká kemur undan jöklinum, og þaðan var stefnan tekin á Skálafellsjökul til að endurnýja bensínbyrgðir. Var sú för tíðindalítil en gaman var að bruna niður Skálafellsjökulinn, kílómeter eftir kílómeter með 60-80 cm jafnföllnum púðursnjó.
Alltaf er gott að koma niður að Jöklaseli og var þar vel tekið á móti hópnum, jafnvel þótt við lentum aðeins inn á svæði sem ætlað var fyrir kvikmyndatökuflokk sem þarna var. Inn í húsinu sáum við ágrip af handritinu sem virtist glæpasaga af svæsnustu gerð. Reyndum við að fá hlutverk fyrir G. Hjálmarsson sem illmennið í myndinni en tókst ekki. Líkast til hefur þeim þótti Guðmundur of góðlegur. Eftir drjúgt stopp á Skálafellsjökli var stefnan tekin upp jökulinn að nýju, niður með Veðurárdalsfjöllum og í Esjufjöll. Er þangað var komið þótti okkur einkennilegt að sjá hvergi merki um Ásbjörn og félaga þar sem langt var liðið á daginn og þeir hefðu átt að vera langt á undan okkur.
Úr Esjufjöllum var ákveðið að aka sömu leið til baka inn á jökul og þaðan í Snæfell. Var greitt ekið og reyndi nú á hver væri hraðskreiðastur. Herma fregnir að þeir grænu hafi fengið þarna nokkra uppreisn æru þar sem 1.000 mótornum í Þönderkettinum virtist vegna einna best. Þegar komið var í Snæfell voru Ásbjörn og félagar að renna þar í hlað og kom þá skýringin á fjarveru þeirra í Esjufjöllum. Mótor í einum sleðanum hafði bilað í Hermannaskarði og voru hinir tveir búnir að draga hann 70-80 km leið í Snæfell. Greinilega alvöru menn á ferð.
Nú voru höfð snör handtök við að undirbúa kvöldmáltíðina, nautalundir með öllu tilheyrandi. Maturinn var að sjálfsögðu frábær og eftir kaffi og súkkulaði var mesti vindurinn úr mannskapnum. Einhverjir hringdu til byggða í kringum miðnættið til að fá helstu kosningatölur en annars létu menn sig kosningarnar litlu skipta heldur sögðu smásögur og rifjuðu upp gömul afrek á fjöllum.
Framsókn með 4
Á sunnudagsmorgni hafði veðrið heldur snúist til verri vegar. Komin norðaustanátt og éljahraglandi annað slagið. Því var ekkert annað að gera en undirbúa heimferð og ganga frá skálanum. Var ákveðið að ljúka ferðinni með sundi á Egilsstöðum, sem og gekk eftir. Á leiðinni niður Fljótsdalinn bárust síðan fréttir af úrslitum kosninganna daginn áður. Framsókn fékk 4!
- Smári að hella uppá.
- Guðmundur vaknaður og til í allt.
- Júlli og Benni klárir í slaginn.
- Fallegur föstudagsmorgun í Snæfelli.
- Morgunstund við Snæfellsskála.
- Filli, Halldór, Benni og Júlli.
- Filli, Halldór, Benni og Júlli.
- Alltaf er hann nú jafn fallegur XLT-inn.
- Lagðir af stað. Snæfell séð frá Þjófahnjúkum.
- Á leið upp á Brúarjökul.
- Horft með áhuga á 900 mótorinn.
- omnir í Hveragil og bað í undirbúningi.
- Í baði undir fossinum.
- Hér sést vel hvar fossinn steypist fram af brúninni.
- Skolað af sér.
- Í Edensgarði.
- Ný baðaðir og fínir. Hreiðar Filli, Sigurgeir og Guðmundur.
- Á leið upp Löngufönn.
- Lónið í Kverkfjöllun. Ef vel er að gáð má sjá mann og sleða niður við lónið.
- XLT og íslistaverk
- Á baðströnd.
- Spígsporað í fjöruborðinu.
- Enn við lónið.
- Meira af því sama.
- Jammi við jökullón.
- Smásögur í Sigurðarskála.
- Mokað frá skáladyrunum.
- Það þurfti aðeins að klappa kúplingunni í 900 kettinum.
- Enn komnir í bað.
- Sunnanmenn orðnir hreinir og fínir.
- Síðuhöfundur nærir sig eftir baðið.
- Í Hveragili.
- Jón, Óskar, Valdimar, Ásbjörn og Hreiðar.
- Hópurinn stillir sér upp til myndatöku í Esjufjöllum. Í aftari röð eru Hreiðar, Júlli, Sigurgeir, Benni 1 & 2 og Guðmundur. Fyrir framan eru Smári, Filli, Jón og Halldór.
- Guðmundur slappar af á dyrahellunni.
- Smásögur í Snæfellsskála.
- Síðuhöfundur tékkar á myndunum en Sigurgeir reynir að ritskoða.
- Eldamennska í fullum gangi.
- Kokkarnir voru valdir með það fyrir augum að ekki þyrfti að nota hárnet við eldamennskuna.
- Formaðurinn sá um að steikja.
- Sestir að snæðingi.
- Glaðbeittir við borðið.
- Gert klárt fyrir heimferð.
- Sunnudagsmorgun og aftur kominn vetur í Snæfelli.
- Úthaldið hans Guðmundar er ekkert slor.















































