Frábært veður og færi á hálendinu

Fjölmenni var á hálendinu um síðustu helgi í blíðuveðri og frábæru færi. Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Við fórum þrír af stað, Sigurgeir, Eiríkur og Smári, um Kaldbaksdal á föstudags- eftirmiðdag, áleiðis í Laugafell. Þá voru greinilega margir farnir af stað á undan okkur. Dalurinn virtist fremur rýr við fyrstu sýn en bara fínn þegar á reyndi. Hálfgert harðlífi var að renna suður “fjallið” að Litla koti en síðan batnaði færið jafnt og örugglega allt þar til það gat ekki orðið betra.

Á laugardagsmorgni, eftir bað og éljagang, braust sólin fram og sýndi sínar betri hliðar. Byrjað var á að renna úr Laugafelli, suður um í Nýjadal og hrafninum gefið. Stefnan þaðan var tekin suður fyrir Mjóhálsinn og reynt við fjöllin austur um og yfir í Snapadal. Færið og veðrið verður vart betra en þarna var. Strauið var tekið þvert yfir Vonarskarð, með viðkomu hjá Hníflunum í gengum skarðið milli Tindafells og Hnúðs. Heldur var nú hokrið mikið á melunum niður með Hraunkvíslinni en við komumst þó í Gæsavötn. Þar fengu menn sér smávægilegan hvíldarlúr um stund. Þá var ákveðið að skella sér í eftirmiðdagsferð austur með jökli. Færið var rennislétt nýsnævi, betra enn nokkru sinni. Erfitt var að hemja fákana fyrr en komið var upp á topp Kistufells, þaðan sem útsýnið var engu líkt…engu líkt. Enginn okkar hafði komið þarna upp áður, og veðrið maður. Horfðum við beint ofaní Toppgíginn á Urðarhálsi og sáum vel yfir úfinn Dyngjujökullinn austur í Kverkfjöll, þar sem gufan sást vel stíga til himins. Hugfangnir héldum við til baka í Gæsavötn og á þeirri leið fjölgaði í hópnum. Formaðurinn og G. Hjálmarsson voru mættir og voru auðvitað sendir í slóðina og sagt að fara upp á Kistufell.

Sunnudagur fagnaði okkur með logni og heiðríkju sem aldrei fyrr. Strikið var tekið inn Dyngjujökul og stoppað um stund við Gjálp. Síðan svo sem leið liggur niður Köldukvíslarjökul og í Snapadal þar sem loks gafst stund til kaffidrykkju og sögustundar. Því næst var tekin styzta leið upp með Rauðá og uppá Tungnafellsjökul, niður Hagajökul nyrðri og í Laugafell. Á heimleiðinni var skotist ofaní Hafrárdal og snjóalög skoðuð með vegagerð í huga. Þá var og brunað norður Seldalsfjallið í von um að finna færa leið niður á Öxnadalsheiði, en því miður virtist það ekki gerlegt. Þannig lauk 450 km helgarferð þar sem allt lék við okkur.

Leave a comment