Spilaferð í Gæsavötn

Það er alveg ásættanlegt að halda kyrru fyrir í heilan dag á meðan snjóar. Því fengu menn að kynnast í Gæsavötnum á miðvikudaginn í síðustu viku og sendi Smári Sig. eftirfarandi ferðasögu.

Á þriðjudagsmorgni var stefnan tekin upp Kaldbaksdalinn og inn í Laugafell. Þar var fyllt á alla koppa og kirnur, nú átti að fara langt austur. Um kvöldmatarleytið vorum við komnir í Gæsavötn eftir hálfgerða harðlífisferð, þar sem skiptust á skaflar af nýsnævi og grjótharðir svellklammar. Í Gæsavötnum var enn tankað og undirbúin brottför lengra, a.m.k. í Sigurðarskála. En þá rauk ´ann upp með miklum sperringi, suðvestan og snjókoma, og stóð við það nóttina og allan miðvikudaginn. Þegar komið var undir kvöld á miðvikudag og menn orðnir hundleiðir á spilunum, var ljóst að við vorum að falla á tíma með austurferð svo réttast var að hörfa. Skutumst því til baka í Laugafell, í fínu veðri. Þar mátuðum við nýju laugina, heitari sem aldrei fyrr. Var tekið kvöld- og svo aftur morgunbað áður en heim var haldið. Ágæt ferð en heldur snubbótt. Það var Hreiðar formaður, Sigurgeir Steindórs., Benni á Bílvirkja, Eiríkur, Smári Sig. og löggurnar þrjár, Steini Pé. Óli Óla og Geir, sem tóku þennan rúnt. Myndir Steini Pé. og Smári Sig.

Leave a comment