Sprett úr spori í Kverkfjöll

Hópur eyfirskra sleðamanna fór í fína ferð inn á hálendið um helgina. Ekið var Laugafell, Gæsavötn og austur í Kverkfjöll framan við Dyngjujökul. Svipuð leið var farin til baka.
Ekið var af Öxnadalsheiði og inn Nýjabæjarfjall, sem hefur að geyma mikinn snjó. Færið þar er nú frekar rifið en fer batnandi þegar innar dregur. Ögn hefur bætt á í Laugafelli frá síðustu ferð. Fínt er að fara hefðbundna leið í Sandbúðir en frekar eru nú gil “tómleg”. Fyrir austan Sandbúðir borgar sig ekki að fara venjulega leið á Skjálfandafljótsbrú, heldur fara suður fyrir Tunguhraunið, eða jafnvel alveg norður fyrir það, þar sem þarna er verulega lélegt færi. Svolítið hefur bætt á í kringum Gæsavötn síðustu daga.

Austur með jökli er verulega flott færi og gott að taka fákana til kostana. Heldur er rýrt á aurunum fyrir neðan Sigurðarskála en vel má skreppa í baðið, þó það hafi ekki verið gert að þessu sinni. Á heimleiðinni stungu menn sér niður í Villingadalinn. Þar er fínn snjór í dalbotninum en hann bara endar um miðjan dal og alautt allt til byggða. Í ferðinni voru m.a. 2 nýir sleðar teknir til kostanna. Gafst gott tækifæri til að athuga hámarkshraðann því rennifæri var sem fyrr segir austur með jökli allt í Sigurðarskála, enda voru menn snöggir. Myndir: Halldór Jóns.

Leave a comment