Jeppamenn úr Eyjafirði og Húsavík fóru upp úr Bárðardal um helgina og inn í Laugafell. Á ýmsu gekk enda víða krapi undir snjónum. Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðalýsingu og myndir.
Þeir sem fóru á föstudag voru eina 13 klukkutíma að komast í Laugarfell. Þeir hrepptu versta veður og svo er allstaðar vatn undir snjónum eftir hlákur undanfarna daga.
Við fórum tveir af stað kl 5 á laugardagsmorgun. Þá var enn suðvestan fræsingur, bjart uppyfir en lága renningur. Framanaf var auðvelt að sjá hvar hópurinn frá föstudeginum hafði stungið sér til sunds en þegar innar dró versnaði veðrið og erfiðara var að sjá eitthvað hvernig landið lá. Endaði með að við sökktum öðrum bílnum í krapa. Snjór var yfir krapanum svo ekkert sást hvar krapinn var og hvar ekki. Þegar ekki var hægt að sneiða fram hjá dokkum og dældum vegna skyggnis fór sem fór. Eftir einn og hálfann tíma náðum við bílnum aftur upp og brunuðum af stað. Þegar komið var upp að Kiðagilshnjúk var komið fínt færi, sérstaklega fínt sleðafæri. Krapinn leyndist undir allt þar til komið var í yfir 850 hæð en þá varð minna um vatnið. Þræða varð hæðirnar mjög norðarlega vestur í Laugafell. Vorum 7 tíma á leiðinni. Veðrið var nú orðið alveg “bongo” og rétt að taka eina bunu upp í Landakot því eini möguleikinn var að vera nógu “hátt uppi” Greinilega hefur mikið gengið á í veðrinu undanfarið eins og sést á myndunum af skálanum.
Stefnan var upphaflega tekin á Gæsavötn með rafgeyminn en sú ferð verður að bíða um stund. Ljóst er að það þarf töluvert frost til að frysta krapann því það er svo mikill snjór yfir honum. En sleðafærið er gott þótt snjór sé í minna lagi, sérlega í og við Laugafell. Myndir og texti: Smári Sig.
- Sem sjá má hefur mikið gegið á við Landakot og skálinn nánast á kafi.
- Krúser upp á Koti.
- Við Galtaból.
- Einn gamall og góður.
- Matur í hádeginu.




