Aukinn og endurbættur Polaris 2004

Þetta verður ár endurbóta en ekki mikilla nýjunga hjá Polaris. Það var ljóst eftir að 2004 árgerðin var kynnt fyrir blaðamönnum vetsanhafs nú í vikunni. Vonbrigði segja sumir en þó er e.t.v. réttara að segja að Polarismenn séu trúir þeirri stefnu sinni að stökkbreytingar séu ekki vænlegar til árangurs í vélsleðabransanum.

Og hver getur líka með góðri samvisku haldið því fram að þetta sé röng stefna. Höfum í huga að enginn framleiðir fleiri sleða árlega en Polaris og enginn býður jafn fjölbreytt úrval sleða, alls 39 mismunandi módel. Er það ekki einmitt þessi árangur sem telur þegar öllu er á botninn hvolft.

Þrátt fyrir hið mikla úrval eru ýmsir grunnþættir sameiginlegir. T.d. eru allar 500, 600, 700 og 800 Polaris-vélarnar útbúnar með hinum sniðuga búanði sem snýr kveikjunni við, þ.e. með rafrænum “bakkgír” og endurbættu kælikerfi sem eykur kæligetuna um allt að 40%. Stærri vélarnar eru einnig með búnaði sem seinkar kveikjunni ef vélin hitnar of mikið. Allir sleðar með Polarisvélum fá nýja gerð af kúplingu. Raunar eru aðeins örfáir sleðar sem enn eru með Fuiji-vélar og síðan er Frontier með fjórgengisvél áfram í boði. Nánast allir sleðar fá einnig nýja og öfluga bremsu. Ný gerð af belti kemur á nokkra sleða og þannig mætti áfram telja.

En lítum þá á sleðana og byrjum á Pro X línunni sem fyrst var kynnt í fyrra. Þar eru 8 módel í boði með mismunandi vélarstærðum. Þeir sem eru fyrir mestu átökin renna eflaust hýru auga til Pro X2 en hann er með sæti svipað og keppnissleðinn, öflugri dempara o.fl. Fyrir þá allra villtustu er síðan Pro XR sem er í raun 440 keppnissleðinn með 800 vél!

Næsti flokkur kallast XC SP og þar eru þrjár vélarstærðir í boði, 600, 700 og 800. Þetta eru vel búnir sleðar með góða akstureiginleika og ættu að uppfylla þarfir allra “venjulegra” ökumanna. Ný gerð af sæti og afturljósi er kynnt á þessum sleðum og gefur forsmekkinn af því sem kemur á næsta ári á öðrum sleðum, ef að líkum lætur.

Millilangir sleðar á 136″ belti hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Polaris hefur boðið SKS í þessum flokki en nú hefur hann fengið nýtt nafn, Switchback, og er kominn á 144″ belti. Þetta er blanda af góðum aksturssleða og sleða sem hentar í púðrið og mun án efa seljast vel.

Í ferðageiranum eru tvær línur í gangi, Classic, sem er geysilega vel búinn sleði með einföldu sæti og stuttu belti og tveggja manna sleðarnir koma á 136″ belti og kallast EDGE Touring. Ýmsar vélarstærðir eru í boði, allt frá 340 loftkældum upp í hina öflugu 800 vél. Loks eru það RMK púðursleðarnir. Í þeim er nú að finna ýmsilegt af því sem kynnt var í Vertical Escape í fyrra en hann var eins og menn muna valinn sleði ársins.

Sem fyrr segir kann sumum að þykja full lítið af nýjungum hjá Polaris þetta árið en þær eru þó ýmsar ef betur er að gáð og rakið var hér að framan. Gleymum heldur ekki að 2005 eru merk tímamót hjá Polaris en þá munu menn fagna því að hálf öld verður liðin frá upphafi fyrirtækisins. E.t.v. er stærri tíðinda að vænta þá.

Leave a comment