
RX-1. Ári eftir að hann kom á markað hafa keppinautarnir ekki enn fundið svar. Þetta er sannarlega eini sleði sinnar tegundar.
Yamaha er samkvæmt venju fyrsti framleiðandinn til að kynna 2004 árgerðina af sleðum en hulunni var svipt af henni vetur í Bandaríkjunum fyrr í dag. Eftir að hafa varpað sprengju inn á markaðinn fyrir ári síðan með RX-1 fjórgengissleðanum og kynnt hinn geysivinsæla Viper fyrir tveimur árum, má segja að breytingarnar hjá Yamaha séu smærri í sniðum að þessu sinni. Þó eru ýmsar nýjungar á ferðinni, m.a. ný útfærsla af RX-1 á 136 tommu belti og ný Venture 700 ferðasleði
Grunngerðin af RX-1 á stuttu belti kemur að mestu óbreytt, enda reynst vel. Sleðinn fær þó nýja gerð af belti frá Camoplast (Rip Saw track ) sem á að gefa enn betri spyrnu. Þetta nýja belti kemur raunar á flestum sleðunum. Einnig má nefna nokkrar minniháttar “fíniseringar”, svo sem endurbætta úrfærslu á hita í handföngum og bensíngjöf, sleðinn hefur verið léttur um 2,5 kg að framan og fleira mætti telja.
RX Warrior er ný útfærsla á RX-1, þ.e. nánast sami sleði og RX-1 en með 136 tommu belti. Honum er ætlað að keppa við t.d. SKS frá Polaris og Renegate frá Ski-doo sem báðir hafa notið mikilla vinsælda. Þessi vinsæla beltislengd er tilraun til að búa til sleða sem hentar sem flestum aðstæðum, þ.e. með meira flot en stuttbeltasleðarnir en betri akstureiginleika en púður- eða klifursleðar á beltum yfir 140 tommur. Warrior er með nýrri útfærslu af afturfjöðrun sem á að vera mjög einfalt að stilla.
SXViperX er annar nýr sleði. Þetta er hreinræktaður sportsleði byggðir á hinum vinsæla og gullfallega Viper sem margir vilja meina að sé einn flottasti sleði sem smíðaður hefur verið. SXViperX er hlaðinn búnaði, m.a. Ohlins dempurum.
SXVenom er líka nýtt nafn en þar er a ferðinni endurfæðing sleða með 600 þriggja strokka mótornum sem ekki var í framleiðslulínunni fyrir árið 2003.
Fyrir ferðadeildina kemur Yamaha með mjög spennandi kost í nýrri Venture 700. Sleðinn hefur nú fengið vélina úr Viper og einnig sama flotta útlitið. Stjórntækin og mælaborðið er hið sama og í RX-1. Þetta er m.ö.o. aflmeiri og flottari sleði en fyrirrennarinn og tilbúinn að takast á við hvaða fjöll sem er.
Mountain-sleðarnir frá Yamaha koma að mestu óbreytir frá fyrri árgerð en þó allir með einhverjum smá endurbótum. Þetta eru RX-1 á 151×2 tommu belti, SXViper á 144×2 tommu belti og hinn þrautreyndi Mountain Max 700 á 141×2 tommu belti.
Nú hefur Yamaha sem sagt lagt sín spil á borðið og þá er bara að bíða og sjá hverju hinir framleiðendurnir svara.