Viðburðarík vorferð á hvítasunnu 2002

Síðastliðin hvítasunnuhelgi bauð upp á hið ágætasta veður um allt land og því notuðu fjölmargir tækifærið og drifu sig á fjöll. Þeirra á meðal var hópur sleðamanna úr Eyjafirði sem átti einkar viðburðaríka helgi í stórgóðri ferð um Vatnajökul og víðar. Óvenju miklar bilanir settu mark sitt á ferðina en þær komu þó ekki í veg fyrir að hún væri kláruð með sóma að kvöldi hvítasunnudags, eins og að var stefnt í upphafi.

Snemma byrja vandræðin

Ferðin hófst um miðjan dag á fimmtudegi þegar Hreiðar formaður, Smári Sig., G. Hjámarsson og Júlli í Brynju lögðu upp af Öxnadalsheiði. Var ferðinni heitið í Gæsavötn en þangað ætlaði afgangurinn af hópnum einnig að koma seinna um kvöldið. Segir fátt af ferð þeirra félaga þar til þeir fara að nálgast Laugafell. Þá neitaði sleði íssalans úr Brynju að fara lengra enda hitinn á vélinni orðinn mun meiri en góðu hófi gegndi. Kom í ljós að kælivatnið var allt farið lönd og leið með tilheyrandi óæskilegum afleiðingum fyrir vélina. Var ljóst að sleðanum yrði ekki ekið lengra í þessari ferð. Hringdi nú Júlli heim í Fíu sína og sagði farir sínar ósléttar. Fía miskunaði sig yfir karlinn og féllst á að lána honum sinn sleða svo hann gæti haldið ferðinni áfram. Var í snarhasti safnað saman harðsnúnum flokki manna til að færa Júlla sleðann upp í Laugafell og draga þann úrbrædda heim.

Sauðburður í sveitinni

Segir nú af hinum hluta hópsins sem ætlaði í umrædda ferð. Þar var um að ræða Benna á Bílvirkja, feðgana af Vélsmiðjunni, Dórana minni og meiri, Sævar GPS-sala og Jósavin byggingafulltrúa. Uppgefin brottför úr bænum var kl. 8 um kvöldið og stóðst það all vel. Upp á Öxnadalsheiði var komið laust fyrir 9 og þá kom ljós að Jósavin yrði seinn fyrir. Hafði karl farið heim úr vinnunni snemma dags til að skrúfa í græjunni, enda hafði hún komið heim með brotinn driföxul úr síðustu ferð. Að auki var sauðburður byrjaður í sveitinni og voru bæði Grána og Móra að bera. Menn gerðu sig nú klára og biðu eftir karlinum. Var tíminn m.a. drepinn við að skoða nýtt litasjónvarp sem GPS-salinn hafði tekið með. Jósavin skilaði sér síðan auðvitað á endanum. Voru nú höfð snör handtök að drífa sig af stað upp Kaldbaksdalinn, enda verulega farið að líða á kvöldið og ljóst að ekki yrði háttum náð snemma í Gæsavötnum að þessu sinni. Raunar skipti það litlu málið því veðrið var hreint einstakt, eins og það getur best orðið á vorin.

Snúinn dempari og laust lok

Ekki höfðu menn ekið lengi þegar byggingafulltrúinn stoppaði. Í ljós kom að asinn á karli hafði verið svo mikill við að setja búkkann undir sleðann fyrr um daginn að dempari snéri vitlaust og rakst niður í beltið. Í Litlakoti var því stoppað, sleðanum velt á hliðina og losað upp á búkkanum þannig að hægt væri að koma demparanum í rétt horf. Stutt frá Laugafelli mættum við síðan þeim sem voru á heimleið með bilaða sleðann hans Júlla. Sögðu þeir hann bíða í Laugafelli ásamt tveimur öðrum og yrði samferða okkur austur í Gæsavötn.

Í Laugafelli var ekið beint að bensíntönkunum og allar holur fylltar. Enginn var þó Júlli á staðnum og kom í ljós að honum hafði leiðst biðin og lagt af stað í Gæsavötn. Var nú hælum slegið við rass og lagt af stað í miðnæturblíðunni. Sóttist ferðin all vel en þó sótti ofurfimman hjá Dóra í að losa tappann á kælivatnsboxinu og þar með losa af sér kælivatnið. Þessu mátti þó öllu redda og á fjórða tímanum var ekið í hlað á Gæsavötnum. Var þá ekkert að gera nema drífa sig í koju enda stutt til morguns, ekki síst þar sem menn vissu af Smára Sig. í húsinu.

Á Hnjúkinn

Föstudagsmorgun rann upp bjartur og fagur. Fóru menn sér að engu óðslega í morgunblíðunni. Sinntu morgunverkum af kostgæfni og snæddu nýorpin gæsaregg. Um 11 leytið var síðan lagt af stað upp á jökul og stefnt á Hvannadalshnjúk. Færið á jöklinum var lengst af gott og allt lék í lyndi. Tekinn var sveigur upp að Grímsvötnum en þó ekki farið ofan í vötnin þar sem Hnjúkurinn var hreinn og tælandi í fjarska. Heldur varð færið ósléttara þegar komið var upp úr Hermannaskarði og norðan í Snæbreiðinni, nánast upp við topp, vildi nýi 900 kötturinn ekki fara lengra. Driföxulinn kominn í tvennt og allt stopp. Nú voru góð ráð dýr. Að vísu hafði varaöxull verið tekinn með að heiman en var skilinn eftir í Gæsavötnum Þangað voru 100 km en þó ljóst að eina leiðin til að halda för áfram væri að sækja öxulinn. Því lögðu tveir af stað til baka í Gæsavötn á meðan afgangurinn af hópnum gekk á Hvannadalshnjúk. Útsýnið af toppnum sveik engan og mikill fögnuður að vera staddir á hæsta tindi landsins, enda sumir ekki komið þar áður.

Þyrlumenn í golfi

Eftir að hafa virt landið fyrir sér um stund var haldið aftur niður. Þá gerðist nokkuð einkennilegt. Eins og upp úr þurru birtist herþyrla og eftir að hafa sveimað um stund umhverfis Hnjúkinn settist hún efst á Snæbreiðina. Biðu menn ekki boðana, ræstu sleða sína og brunuðu á staðinn. Var helst haldið að þyrlumenn ágirntust 900 græjuna sem eins og fyrr segir hafði verið skilin eftir upp undir toppi. Sá ótti reyndist ástæðulaus því í ljós kom að þarna voru á ferð varnarliðsmenn af Keflavíkurflugvelli, komnir í þeim tilgangi að spila golf. Eftir að hafa slegið nokkrar kúlur út á jökulinn svifu þeir á braut og voru horfnir jafn skyndilega og þeir komu.

Sleðaviðgerð og húsbygging í 2.000 m hæð

Var nú tekið til við að rífa 900 sleðann og bíða eftir þeim sem fóru að sækja öxulinn. Styttu menn sér m.a. stundir við að grafa snjóhús all mikið. Verkið sóttist reyndar seinna en ella þar sem bæði formaður bygginganefndar Eyjafjarðar og byggingafulltrúinn voru með í för. Sérstaklega var byggingafulltrúinn erfiður. Sagði engar samþykkrar teikningar af snjóhúsinu liggja fyrir, vatn til brunavarna væri ekki til staðar eins og reglugerð kvæði á um, óvíst væri um burðarþol og hlutverk hússins væri óskilgreint. Heimtaði hann stöðugar úttektir á byggingartíma sem töfðu verkið nokkuð. Í þann mun sem öxullinn renndi í hlað var húsið þó orðið það stórt að þar gátu sex menn setið með góðu móti í skjóli fyrir nöprum austanvindinum. Eftir að varahlutir voru komnir á staðinn kepptust menn sem mest þeir máttu við að gera við og kom sér sannarlega vel að hafa bifvélavirkja með í för.

Óvæntur næturstaður

Nokkuð var nú farið að líða á kvöldið og enn óvíst með næturstað. Ýmsir möguleikar voru ræddir en ljóst þótti að til að geta ekið af krafti næstu tvo daga þyrfi að komast í bensín, annað hvort á Skálafellsjökli eða láta ferja það áleiðis í Snæfell. Það var þá jafnframt líklegasti næturstaðurinn þótt þangað væri langt að aka. Stutt var í nýjan skála Jöklarannsóknarfélagsins í Esjufjöllum en hann var bókaður um kvöldið. Smári vissi að þar var m.a. um að ræða Villa sem var á Hveravöllum og var hringt í hann til að tryggja að heitt væri á könnunni þegar við ækjum um Esjufjöllin. Þá kom í ljós að Villi og félagar höfðu orðið seinir fyrir og voru enn staddir á þjóðvegi 1 einhvers staðar á Suðurlnadi. Því var ljóst að þeir myndu ekki ná í skálann um kvöldið og við gátum því hlaupið í skarðið. Kættust menn nú verulega enda dagurinn þegar orðinn langur og flestir lítið sofnir frá nóttinni áður. Sprett var úr spori niður í Esjufjöll og þar rennt í hlað hjá hinum nýja og glæsilega skála. Svo skemmtilega vildi til að hluti hópsins hafði verið þarna á ferð réttum fjórum árum áður, ekki löngu áður en gamli skálinn fauk. Nú var slegið upp veislu með skinku, brúnuðum kartöflum og ýmsu góðgæti og upp úr því sofnuðu flestir fljótlega.

Loksins komust við í bað

Enn var sama blíðan þegar vaknað var á laugardagsmorgninum og borðuðu sumir morgunmatinn léttklæddir á dyrahellunni. Esjuföll eru einstakur staður, ekki síst á vordegi sem þessum, og nutu menn svo sannarlega útsýnisins. Síðan var lagt af stað áleiðis á Skálafellsjökul. Á leiðinni mættum við m.a. miklum flokki Ski-doo sleða sem hélt til á Skálafellsjökli um hlelgina í ferð á vegum umboðsins. Niður undir hótelinu var mikið um að vera en þar var þá verið að taka upp auglýsingamynd fyrir nýja Hummerinn. Var ekki laust við að sveitamenn úr Eyjafirði væru nokkuð kjálkasíðir út af öllu tilstandinu sem virtist þurfa í kringum þetta. Nú var tankað og spáð í næsta legg ferðarinnar. Var ákveðið að taka stefnuna á Kverkfjöll og miða við að gista í Sigurðarskála. Litlu mátti reyndar muna að við misstum einn mann, en sá var orðinn einkar áhugasamur um allar þær freistingar sem Skálafellsjökull hefur upp á að bjóða. Hann náðist þó með fyrir rest. Nú var sú staða raunar komin upp að flokkurinn skiptist í tvennt. Þrír tóku strikið heim á leið þar sem tveir ætluðu að vera komnir heim um kvöldið og einn að sameinast konu sinni í Laugafelli.

Afgangurinn stefndi hins vegar í bað í Hveragili og var nú ekið greitt, enda jökulinn eggsléttur. Heiti lækurinn brást ekki vonum manna og ómuðu ánægjustunurnar um allt Hvreagil þegar menn skriðu ofan í. Eftir þetta þrifabað var síðan þrædd leið í gegnum Kverkfjallaranann og í Sigurðarskála. Nú hófst undirbúningur mikillar grillveislu sem endaði, eins og að var stefnt, með miklu áti. Eftir matinn fengu menn sér ýmist göngutúr eða tóku lífinu með ró heima í skála. Var snemma gengið til náða og sofið vel.

Enn brotinn öxull

Ekki breyttist veðrið og að morgni hvítasunnudags var enn vaknað í glaðasólskini. Eftir að hafa tekið saman og gengið frá skálanum var fyrst ekið að íshellinum og síðan rennt upp Löngufönn, sem gekk áfallalaust. Nokkur strekkingur var uppi á brún jökulsins en þó litu menn á Hverasvæðið og tóku síðan stefnuna inn á jökul. Planið var að fara á Bárðarbungu og þaðan niður Köldukvíslarjökul ofan í Vonarskarð. Var greitt ekið og lítið stoppað fyrr en upp á Bárðarbungu. Kom þá í ljós að heldur hafði fækkað í flokknum. Eftir snögga talningu komust menn að því að það vantaði Benna og Dóra Jóns. Loks kom Benni og bar þær fréttir að ofurfimman væri með brotinn driföxul inn á miðjum jökli. Nú var engum varaöxlum til að dreifa og sleðinn ekki hæfur til dráttar. Í Gæsavötnum voru hins vegar tvær kerrur og nú þeystu tveir þangað til að sækja þær en hinir óku aftur til baka til að veita Dóra félagsskap og undirbúa flutning til byggða.

440 hestöfl dugðu vel

Þegar kerran var komin á staðinn var dregin upp járnsög og rekkverkið sagað ofan af henni. Síðan var skíðunum snúið við á sleðanum þannig að bogni endinn vísaði aftur og hann síðan settur afturábak með beltið upp á kerruna. Þannig var hann dreginn niður í Gæsavötn. Þar var byrjað að rífa en fljótlega kom í ljós að meira var skemmt en bara driföxullinn og því sýnt að ekki yrði gert við gripinn á fjöllum. Því var ákveðið að prófa að draga sleðann áfram niður á Öxnadalsheiði, þótt færið væri orðið ansi blautt og snjórinn mjög farinn að minnka. Fyrst var kerran hengd aftan í 700 Venturuna hjá Smára og hann síðan bundinn aftan í 900 köttinn hans Sigurgeirs og 1000 köttinn hjá Guðmundi. Þannig var búið að beita um 440 hestöflum fyrir kerruna, enda sóttist ferðin vel. Ekið var í Sandbúðir, þaðan beint í Bergland og sem leið lá niður á Öxnadalsheiði. Þar endaði ferðin formlega og stóð á endum að um korteri eftir að komið var í bílana lagðist þokan yfir en annars hafði ekki dregið ský fyrir sólu allan túrinn. Myndir og texti: Halldór Arinbjarnarson.

Leave a comment