Blautt en gott mót í Kerlingarfjöllum

Kerlingarfjallamótið um liðna helgi verður mörgum minnistætt. Sem kunnugt er var ansi blautt á fjöllum þessa daga og setti það mark sitt á ferðalagið. Elín H. Gísladóttir, stjórnarmaður í EY-LÍV, sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Ævintýrið hóft fyrir alvöru á föstudagskvöldið. Ekið var frá Laugafelli í Ingólfsskála og var veðrið og skyggnið frábært. Í samfloti voru 25 sleðar og voru þar Akureyringar, Húsvíkingar og Austfirðingar á ferð saman. Frá Ingólfsskála var stefnan tekin beint á Kerlingarfjöll enda farið að dimma. Farið var yfir jaðar Hofsjökuls og var færið á jöklinum var dálítið úfið og hart.

Í myrkri og krapa

Þegar komið var niður af jöklinum stutt frá Kerlingarfjallaskála var komið myrkur og þar lentum við í miklu krapi og bleytu. Sátu allt upp í 8 sleðar fastir í krapanum samtímis. Sumir komust klakklaust yfir aðrir misstu sleðana niður nokkrum sinnum. Í stuttu máli má segja að fyrstu menn komu í Kerlingarfjallaskála um kl. hálfeitt en þeir síðustu ekki fyrr en um hálf sex um morguninn. Var þá ekki bara búið að koma okkar hópi í hús heldur einnig hópi af Sunnlendingum sem einnig var í brasi í krapinu. Að vísu voru nokkrir sleðar skildir eftir í krapinu og ákveðið að sækja næsta dag. Á laugardagskvöldið var svo heljar veisla.

Góð heimferð

Ræs var snemma á sunnudag, etin morgunmatur, pakkað, þrifið og lestað. Veðrið var úrhellis kraparigining þegar lagt var af stað. Nú sást hvar vatnið svo hægt var að krækja framhjá stærstu krapapyttunum. Strax eftir að komið var upp í Hofsjökulinn fór veðrið að skána og var sólin mætt áður en kom að Ingólfsskála. Fengum við frábært veður það sem eftir var leiðarinnar. Komið var niður á Öxnadalsheiði kl 17.30 um kvöldið eftir mikið fjallaævintýri sem lengi verður munað.

Leave a comment