Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðasögu en hann og Hreiðar í Vín fóru í síðustu viku árlega sleðaferð með hópi lögreglumanna frá Akureyri.
Það var vel stemmdur hópur sem lagði upp Þormóðsstaðadal. Heldur dróst nú brottför þar sem undirritaður var bara “hálfklár ” þegar leggja átti af stað. Skórnir stóðu enn tilbúnir í bílskúrnum heima. Ferðaáætlun var að fara í Gæsavötn og gista þar. Þegar upp var komið var frekar hryssingslegt veður en formaðurinn (Hreiðar) teymdi hópinn af röggsemi. Í Landakoti tóku löggurnar meira bensín til fararinnar. Geir “Trukkdriver” mátti draga eina 150 lítra á þotuna og varð ekki meint af. Skotið var á fundi og planinu breytt, ákveðið að fara í Laugafell þar sem útlit var fyrir enn hvassari suðaustanátt í Gæsavötnum. Menn voru bara kátir með þennan kaldaskít, “bara hressandi,” sagði Steini Pjé.
Langur dagur
Eftir morgunbaðið og um áttaleytið var kominn tími til að halda austureftir. Menn hressir í bragði (þó svo Óli hafi nánast ekkert sofið frekar en venjulega) enda skein sól í heiði. Stoppað var augnablik í Sandbúðum og svo haldið austur í Gæsavötn þar sem tankað var, þotan skilin eftir og tekið smá kaffitár. Ákveðið var að prófa nýja leið austur, fara alveg upp að jökli og meðfram honum allt að Kistufelli. Færið reyndist frábært og veðrið ekki lakara. Frá Kistufelli var ekið með jökulstálinu í rennisléttu nýsnævi. Losnaði þá um bensingjöfina hjá flestum en aðrir vorkendu sleðanum að snúast svona hratt og héldu sig á “löglegum” hraða, þrátt fyrir heimildir um annað. Menn höfðu aldrei keyrt jafnt langt á svona sléttum grundum, eða eina 40 km. Eftir stutt kaffistopp í Sigurðarskála var kominn tími til að fara með liðið í helgidóminn. Baða átti línuna í Hveragili. Farið var upp skriðjökulinn og gilin þrædd austur yfir Kverkfjöllin. Heitilækurinn tók hlýlega á móti okkur eftir frábærann sprett. Eftir þrifabað var glímt við nokkrar brekkur og þær auðvitað sigraðar. Því næst var haldið niður með Kverkárnesi allt niður í Hvannalindir og í Grágæsadal. Þar fór brytinn í búninginn og galdraði fram kvöldmat og tilheyrandi að hætti Steina Pjé. Kvöldvakan var stutt – nokkrar smásögur og fyrri frægðarverk. Langur dagur var að baki og bensínfingurinn aumur.
Áfram skein sólin
Næsti dagur heilsaði eins og sá fyrri með sól, logni og hita. Sumir þurftu að ganga á fund “páfans” og leystu sín mál en aðrir lögðu ekki í skriftir, sögðust ekki þurfa þess. Japanski búðingurinn steikti meiðana á fyrstu metrunum en hresstist fljótt eftir smá kælingu. Aðrir víxluðu kertum, settu aftur gömlu ónýtu kertin í og allt lék í lindi. Farið var niður í Krepputungur, sem eru byrjaðar að blána og skoðað ættartal goðanna við Jökulsá á Fjöllum. Þaðan var farið í Dreka og lagfærður opinn, skemmdur gluggi. Kíkt var í Víti og farið suður Öskjuna, yfir Dyngjuskarð, niður hjá Kattbeking, yfir Trölladyngju og í Gæsavötn. Þar var þotan tekin með, heldur léttari enn fyrr. Brennt var í Laugarfell og nú fyrst fór veður að breytast, eða öllu heldur birtan, því komin var snjóblinda. Þegar vestar kom mætti okkur þoka en samt var hlýtt í veðri. Í Laugafelli var tekið enn eitt þrifabaðið, með svo miklum tilþrifum að Dunni nánst skar af sér fótinn. Var þetta skráð sem vinnuslys. Eftir baðið og plástrun, nýbakað brauð og kaffi, var haldin sama leið til baka niður í snjóléttan Þormóðsstaðadalinn og enn í sömu þokunni. Þar beið yfirvaldið sinna manna og flutti í bæinn.
- Ættartal goðanna við Jökulsá á Fjöllum.
- Kúrsinn tekinn í blíðunni.
- Sér í Kverkjföll.
- Kokkarnir við kabyssuna í Grágæsadal, Steini Pje. og formaðurinn.
- Í Grágæsadal.
- Stoppað og spjallað.
- Flokkurinn við Dyngjujökul
- Dunni í Grágæsadal.
- Bakvið rimlana.








