Eyfirskir sleðamenn latir um páskana

Eyfirskir sleðamenn voru ekki duglegir að ferðast um páskana og hefur síðuhöfundur aðeins haft spurnir af einum sex manna hópi sem fór í alvöru fjallaferð. Lagt var upp um miðjan dag á skírdegi og haldið í Gæsavötn þar sem gist var fyrstu nóttina í góðu yfirlæti. Þaðan var ekið daginn eftir áleiðis í Sigurðarskála. Talsverðar þræðingar eru um hraunið frá Gæsavötnum um Dyngjuháls og Urðarháls en fyrir framan Dyngjujökul er nokkuð góður snjór. Frá Sigurðarskála var ekið í Hvannalindir og þaðan í Grágæsadal. Þar hugðust menn búa um sig en þá birtist flokkur jeppamanna sem var með skálann bókaðan. Sleðamenn slógu því hælum við rass og óku vestur í Kistufell til að gista. Daginn eftir, á laugardegi, var síðan haldið heim á leið með viðkomu í Laugafelli. Mikið snjóaði á laudardaginn og var ekið niður Þormóðsstaðadal í gríðarlegum lausasnjó. Að sögn Sigurgeirs á Vélsmiðju Steindórs, sem fór í þessa ágætu ferð, eru snjóalög víðast sæmileg þótt menn hafi vissulega upplifað bjartari tíma í þeim efnum. Nýi 900 kötturinn virkaði fínt og er eigandinn alsæll með gripinnn. Nokkuð var um jeppamenn á fjöllum um páskahelgina en þeir félagar urðu ekki varir við að neinir aðrir sleðamenn hefðu hætt sér úr byggð. Er vonandi að menn fari nú að hysja upp um sig buxurnar, eða réttara sagt sleðagallann, og drífa sig á fjöll. Nú eru tveir bestu mánuðir ársins framundan og um að gera að nota þá vel.

 

 

Leave a comment