Fjölmargir drifu sig á fjöll í gær í frábæru veðri. Sævar í Haftækni sendi eftirfarandi sögu og myndir af ferð félaga úr Ungmennafélaginu sem fóru í Laugafell og víðar.
Veðurspáin var frábær, hörkufrost og léttskýjað. Brottför úr “Vínardalnum” var einum og hálfum tíma eftir útgefinn brottfarartíma og telst það “normal”. Leiðangursmenn voru Hreiðar, Jósavin, Eiríkur, G.Hjálmars. Sigurgeir, Jón Björns og Sævar Sig.
Þumbast var fram Sölvadalinn með sleðana á kerrum en hæpið er það borgi sig. Betra er að taka af neðar og keyra fram dalinn. Kerhólsöxlin (Kerhólskambur segja heimamenn) var eins og best verður á kosið. Þó er grjót uppúr efst en samt allt í lagi. Uppi á fjallinu er snjórinn harður og rifinn og í heildina talið er lítill snjór miðað við meðalið. Ekið var í slóð þeirra Landakotsjarla sem voru að moka frá húsinu þegar við komum að. Frostið svo mikið að það var bara mokað frá efri hlera. Áfram var haldið og voru þræðingur þegar nálgaðist Laugafell, eins og að vori, en þó var nýfallinn snjór þegar komið var heimundir.
Í Hjörvarsskála var hressing og nýja eldhúsinnréttingin fékk lof og last eins og gengur. Að loknu kakói var tankað og þurfti G.Hjálmars áfallahjálp eftir að hafa séð hvað nýi Þönderinn eyddi (50% meira en Jamminn). Sennilega er það bara nýja 28″ Garmin tækið með Íslandskortinu sem er svona eyðslufrekt. Skyndilega birtist Björn Hesjuvellingur með fjöldan allan af hestöflum prýddum fjallaförum sem voru á leið í Laugafell. Var þarna haft stutt stopp, spé og spaug en allir voru að njóta náttúrunnar. Eftir orkulestun ókum við suður á bóginn í “höstu” færi og var stoppað á Fjórðungsöldu. Þar sást til allra enda á hálendinu í heiðríkjunni. Frostið líklega á þriðja tuginn en það var létt yfir mönnum. Svona áttu dagarnir að vera. Því næst var ekið í Sandbúðir. Þar sem Greifinn af Sandbúðum var með í för var boðið upp á KEA Saxbauta úr dós, sem allir reyndar afþökkuðu. Ákveðið var að gista ekki á hálendinu í þessari ferð. Því var ekið sem leið lá í Galtaból og þaðan í Landakot. Þar var enginn maður, jarlarnir farnir heim, enda var sólin sest og hrímþoka lögst yfir. Smá hressing var tekin fyrir lokasprettinn og nokkrar stórhríðarsögur rifjaðar upp.
Formaðurinn ákvað að fara Þormóðsstaðadal í stað þess að fara sömu leið og við komum upp. “Bara að gá.” Ekið var sem leið lá, allt í rútum og engin vandræði, enda sumir hér búnir að fara þetta yfir þúsund sinnum. Þegar við komum niður í daldrögin mýktist færið og varð frábært, silkifæri “saggði” formaðurinn með norðlenskasta hreim sem til er. Þó voru göt á ánni og þurfti að beita ökuleikni. G. Hjámars sagði að Jósavin þyrfti að borða meira til að geta beitt Panterunni í hliðarhalla. Ekin var hámarksferð fyrir minn smekk, og var það frábært. Komum niður að Þormóðsstaði þar sem allt er í myrkri og kulda og fannst mönnum þetta dapurlegt hvernig byggðin er að fara. Loks var keyrt niður dalinn og að bílunum. Ferð lokið.
Ein bilun kom upp í ferðinni. Búkkahjól datt undan hjá Hreiðari. Sigurgeir greip það upp á ferðinni, Jósavin átti bolta, Eíríkur átti rétta lykilinn og hjólið sett undir. Af þessu varð þriggja mínútna töf. Þetta var frábær ferð, stutt, erfið en góð.
- Hetjur hálendisins. Eiríkur, Hreiðar, G. Hjálmarsson og Sigurgeir.
- Heiðríkja á Fjórðungsöldu.
- Vetrarhálendi.
- Tungnafellsjökull séð af Fjórðungsöldu.
- Sleðar í fjötrum hálendisins.




