Ski-doo kynnir nýja vél

Nýja 800 SDI-vélin frá Ski-doo

Nýja 800 SDI-vélin frá Ski-doo

Ski-doo hefur nú kynnt alla 2003 línuna fyrir blaðamönnum vestanhafs. Þegar hefur mikið verið fjallað um að nýu REV-sleðana en það er ýmislegt annað forvitnilegt að gerast. Það á einkum við um vélamálin og það jafnvel þó að ekki sé kynnt til sögunnar fjórgengisvél sem er samkeppnisfær í afli við RX-1 frá Yamaha.

Hæst ber nýja 800 tvígengisvél sem nefnist SDI (Semi-direct injection) og er eldsneytiskerfi hennar öðruvísi úr garði gert en tíðkast hefur í vélsleðavélum. Nýjungin felst í því að tveir spíssar á hvorum strokki úða réttri blöndu af bensíni og olíu inn í strokkinn. Allt byggir þetta á tölvustýringu, sem segja má að sé hjarta vélarinnar. Tölvustýringin er stöðugt mötuð á upplýsingum frá skynjurum sem taka m.a. mið af hitastigi, loftþrýstingi, inngjöf og snúningshraða vélarinnar. Ásamt því að stjórna innspýtingunni sér tölvustýringin m.a. um að stilla kveikjutímann og pústventlana þannig að úr verður einn heildarpakki. Þessi nýja vél á að menga 50% minna en forverinn, vera 25% sparneytnari og skila fleiri hestöflum. Þetta eru álitlegar tölur og fyllilega sambærilegar við það sem RX-1 fjórgengisvélin frá Yamaha á að gera. Þá verða bæði 800 og 600 Ski-doo vélarnar boðnar í svokallaðri H.O. (High Output) útfærslu, sem skila enn meira afli en “standard”.

Leave a comment