Umbyltur MX – Ski-doo kynnir REV

Nýr MX Z REV árg. 2003 á flugi.

Nýr MX Z REV árg. 2003 á flugi.

Í vetur hefur verið skammt stórra högga á milli í vélsleðaheiminum. Í nokkur undanfarin ár hafa í raun fáar grundvallarbreytingar orðið í smíði vélsleða þótt vissulega sé einhver þróun alltaf í gangi en það sem gerst hefur í vetur er hins vegar mun stærra í sniðum en menn hafa átt að venjast. Fram á sjónarsviðið hafa komið nýir sleðar sem svo sannarlega hafa hrist upp í því sem fyrir var. Fyrst kom Arctcic Cat með nýjan Sno Pro, þá Ski-doo með nýjan keppnissleða og loks Yamaha með nýjan fjórgengissleða. Senn mun liggja fyrir hvað verður boðið upp á í 2003 árgerðinni og eins og við var búist kemur m.a. Ski-doo með nýjan MX Z sem byggður er á áðurnefndum keppnissleða.

REV

Við skulum líta aðeins á þennan nýja MX sem fullu nafni mun heita MX X REV en síðasta skammstöfunin stendur fyrir “revolution” eða bylting. Það er vissulega réttnefni því hér er kominn sleði mjög frábrugðinn forverum sínum. En í hverju felst byltingin? Ekki er hún a.m.k. í vélarmálum því sleðinn verður annars vegar boðinn með núverandi tveggja strokka 800 vél og hins vegar 600 tveggja strokka vél, sem reyndar er ný af nálinni en þó byggð á eldri vélum. Hún á að skila talsvert meira afli en núverandi 600 vél, eða allt að 125 hestöflum.

 Nýtt byggingarlag

Hér sést afturhluti sleðans vel og nýstárlegt sætið.

Hér sést afturhluti sleðans vel og nýstárlegt sætið.

Byltingin felst fyrst og fremst í því hvernig sleðinn er byggður en þar er notast við önnur lögmál en verið hafa ráðandi í vélsleðum til þessa. Í raun þarf ekki annað en að líta á sleðinn til að átta sig á þessu. Lykilatriði er að setu ökumannsins hefur verið breytt og hún færð framar. Byggingarlag sleða hefur fram að þessu tekið mið af því að ökumaðurinn sitji því sem næst yfir aftari öxlinum í búkkanum með handleggi og fætur teygða fram. Eins og þeir sem fylgjast með snjókrossi vita þá hefur mjög færst í vöxt að ökumenn standi nánast alla keppnina og hönnun nýja REV-sleðans tekur mið af þessu. Ökumaðurinn situr um 15 cm framar en tíðkast hefur og einnig uppréttari. Þannig eru fæturnir beygðir því sem næst í 90 gráður um hnén þegar setið er og gert ráð fyrir að ökumaðurinn standi talsvert við aksturinn. Raunar er ekki flókið að sjá hvaðan þessi hugsun er komin en þetta eru sömu lögmál og gilda á krosshjólum. Æskilegri þyngdardreifing og betri aksturseiginlekar fást einnig með því að vélin hefur verið færð rúmum 6 cm aftar og 3 cm neðar en í “venjulegum” MX. Nú á 80% af þunganum að vera innan við 30 cm frá driföxlinum.

Nýr framendi

Framendinn á sleðanum er einnig nýr þar sem A-arma fjöðrunin hlýtur að vekja athygli. Ef marka má úrslit úr snjókrosskeppnum vetrarins er þetta fjöðrun sem svínvirkar. Sjálft húddið er í raun aðeins lítið lok en með því að fella hliðarnar alveg niður fæst einstaklega gott aðgengi að öllum vélarhlutum, kúplingum, drifhúsi o.s.frv sem auðveldar viðhald og alla umgengni. Það var einmitt meðal þeirra markmiða sem hönnuðirnir lögðu upp með. Fjöðrunin að aftan er byggð á búkkanum úr 2002 árgerðinni af MX með nokkrum endurbótum sem aukið hafa slaglengdina í 14,5 tommur. Að öllu samanlögðu á sleðinn að vega um 227 kg með 800 vélinni sem hlýtur að teljast allgott. Ljóst er að hér er komið leiktæki með frábæra aksturseiginleika og undarlegt ef eftirspurnin næsta haust verður ekki í samræmi við það, ekki síst þar sem verðið á að vera mjög samkeppnisfært. Með nýrri aflmikilli fjórgengisvél, sem sögur segja að Ski-doo muni spila út innan tíðar, verður MX Z REV líka enn áhugaverðari kostur, þ.e. ef…

MXREV.4

Hér sést útsýni ökumanns.

MXREV.1

Hér sést hvernig hægt er að taka hliðarnar úr framendanum til að auðvelda aðgengi.

MXREV.2

Sjálft húddið er bara lítið lok.

MXREV.3

Fjöðrunin.

Leave a comment