Ljóst má vera að Yamaha hefur hrist duglega upp í vélsleðaheiminum með nýja RX-1 sleðanum. Í raun er hér kominn fyrsti alvöru fjórgengissleðinn sem er samanburðarhæfur við öflugustu tvígenissleða. Vélin er 998 cc, vatnskæld fjögurra strokka línuvél sem byggð er á hinni vinsælu R1 mótorhjólavél og skilar frá sér 145-150 hestöflum. Yamaha-menn kalla vélina Genesis Extreme. Hún er með tveimur yfirliggjandi knastásum, fimm ventlum á sílender (samtals 20 ventar!) og 37 mm blöndungum
Snúningshraði vélarinnar er allt að 10.200 snúningar á mínútu (rpm), sem er of mikið fyrir hefðbundnar vélsleðakúplingar. Snúningshraðinn er því gíraður niður framan við fremri kúplingu þannig að hann verður um 8.000 rpm að hámarki. Vélinni er hallað aftur um 30 gráður til að koma henni betur fyrir og snúa blöndungarnir fram. Pústið snýr því aftur, er leitt undir sætið og kemur út sitt hvoru megin við það að aftanverðu. Vélin er einnig neðar og aftar en t.d. í SRX-sleðanum og þyngdarpunkturinn því betri. Forsvarsmenn Yamaha fullyrða að nýja vélin sé 30% sparneytnari en en 800 cc tvígengisvél og togi 65% meira.
Nýr frá grunni
En það er ekki bara vélin sem er ný. Þetta er algerlega nýr sleði, að búkkanum frátöldum. Grindin er af nýrri gerð þar sem saman fer styrkur og léttleiki. Framfjöðrunin hefur ekki áður sést hjá Yamaha en svipar óneitanlega til A-arma fjöðrunarinnar sem Arctic Cat hefur þróað með góðum árangri. Að framan á sleðinn að fjaðra um 9 tommur en 11,5 að aftan. Þar er notuð reynd fjöðrun frá Yamaha, sama og í SX Viper, hin svokallaða Pro Action. Eins og vera ber er RX-1 vel búinn að öllu leyti, með stafrænu mælaborði og ýmsu fleiru.
Þrjár útfærslur
Sleðinn kemur í þremur útfærslum sem auk grunngerðarinnar RX-1 eru RX-1 ER (með bakkgír) og Mountain RX-1 á 151×2 tommu belti, hærra stýri, mountain-aturfjöðrun en eins að öðru leyti. Einnig býður Yamaha þrjár gerðir til viðbótar sem fást munu í takmarkaðann tíma (“vortípur”). Verðið er e.t.v. lægra en margir hefðu búist við, eða frá 8.850 dollurum. Til samanburðar kostar Ventura 700 8.399 dollara og SX Viper 7.499 dollara.
En hvað með aðra sleða?
Skiljanlega falla aðrir sleðar frá Yamaha af 2003 árgerðinni nokkuð í skuggann af þessari sprengju sem nú hefur verið varpað inn á vélsleðamarkaðinn en fleiri athyglisverðir sleðar finnast í framleiðlulínunni fyrir 2003. SX Viper hefur fengið nokkrar minniháttar endurbætur, m.a. nýtt belti og sætisáklæði. Þetta er mest seldi nýi sleðinn af 2002 árgerðinni og hefur komið mjög vel út vestanhafs. Þá kemur Viper nú í mountain-útgáfu á 144×2 tommu belti. Venture ferðasleðarnir standa áfram fyrir sínu og eru nánast óbreyttir frá 2002 módelinu.