Kverkfjöll eru mikil megineldstöð í norðurbrún Vatnajökuls og þriðji hæsti fjallbálkur landsins á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu. Tvær jökulfylltar öskjur eru taldar vera í Kverkfjöllum og litlu sunnar og vestar á Kverkfjallahrygg. Er syðri askjan jökli hulin en rimar þeirrar nyrðri eru að mestu íslausir nema að sunnanverðu. Liggja þeir í um og yfir 1800 m hæð. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu í 1936 metra hæð yfir sjávarmál. Ekki er vitað nákvæmlega hversu oft gosið hefur í Kverkfjöllum sökum þess að eldstöðin liggur undir jökli og hversu afskekkt þau eru. Þó eru ummerki um a.m.k. 20 gos frá landnámi sem líklegt er að eigi rætur sínar að rekja til Kverkfjalla.
Skiptast í tvennt
Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverkina sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverkina skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 900 metra hæð. Beggja vegna Kverkfjalla falla afar stórir skriðjökulskildir, Dyngjujöklull að vestanverðu og Brúarjökull að austanverðu. Ná þeir allt frá ísaskilum langt suður á Vatnajökli og falla aflíðandi norður á hásléttuna. Dyngjujökull hljóp fram á árunum 1999-2000 og er enn með öllu ófær.
Kverkfjallarani er að meginhluta byggður upp af samsíða móbergshryggjum, 5–6 talsins, og fara hnjúkar hækkandi eftir því sem nær dregur Kverkfjöllum. Sigdalur sem Hraundalur kallast liggur um ranann endilangan með stefnu á Kverk og skiptir honum í Austur- og Vesturrana. Niður í innsta hluta hans skríða urðarjöklar frá Kverkfjöllum eystri.
Að komast í Kverkfjöll
Kverkfjallasvæðið var um aldir vel varið frá náttúrunnar hendi. Stafar það af því að undan skriðjöklunum beggja vegna falla miklar jöklulár, Kreppa undan vesturjaðri Brúarjökuls en Jökulsá á Fjöllum í mörgum kvíslum undan Dyngjujökli. Svæðið á milli þeirra nefnist Krepputunga. Fornar heimildir og munnmæli benda til mannaferða yfir Vatnajökul á miðöldum en jökullinn var þá langtum minni en síðar varð. Ekki er ólíklegt að leið Norðlendinga suður yfir jökul hafi legið upp austan Kverkfjalla. Fyrstur til að ganga á Kverkfjöll var þýski jarðfræðingurinn Trautz árið 1910.
Sumarið 1970 var Kreppa brúuð suðvestur af Arnardal og rudd akslóð inn Krepputungu um Hvannalindir og Kverkhnjúkaskarð að Kverkfjöllum. Vestan úr Ódáðahrauni liggur svonefnd Austurleið [F910] yfir brú sem byggð var yfir Jökulsá á Fjöllum rétt sunnan Upptyppinga árið 1986. Út frá henni liggur Kverkfjallaleið [F902] suður til Kverkfjalla. Austurleið heldur áfram austur yfir Krepputungu en við Kreppuháls greinist frá henni Hvannalindavegur [F903] suður í Hvannalindir.

Ekið upp á Vatnajökul áleiðs frá Sigurðarskála í Kverkfjöllum, upp sjálfa Kverkina. Þessi leið hefur verið algerlega ófær undanfarin ár.
Vetrarferðir opnuðu fólki alveg nýja sýn á Kverkfjöll, eins og raunar allt hálendið. Þegar snjór er nægur er auðvelt að aka á sleðum og bílum framan við skriðjöklana, Dyngjujökul og Brúarjökul, og inn í Krepputungu, en einnig er algengt að koma í Kverkfjöll ofan frá, þ.e. af Vatnajökli. Þá er jafnan ekið niður svonefnda Löngufönn en athuga verður að sú leið getur stundum verið algerlega ófær út af jökulsprungum. Einnig hefur verið ekið um sjálfa Kverkina en hún er algeralega ófær öllum ökutækjum um þessar mundir. Sé komið niður Brúarjökul þarf að komast yfir Kverkfjallaranann eða krækja austur fyrir hann.
Sigurðarskáli
Sumarið 1971 reistu Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, Vopnafjarðar og Húsavíkur skála í Kverkfjöllum, Sigurðarskála. Stendur hann vestan undir svonefndu Virkisfelli og er kenndur við Sigurð Egilsson, forgöngumann í ferðamálum á Húsavík. Tjaldsvæði er rétt við skálann. Á seinni árum hefur verið byggt við Sigurðarskála og tekur hann nú um 85 manns í svefnpokagistingu. Skálinn er opinn allt árið og þar er gæsla yfir sumartímann.
Jarðhiti í Kverkfjöllum
Eitt öflugasta háhitasvæði landsins er að finna í Kverkfjöllum vestari. Tengist það misgengi með sigstalli til vesturs. Hverasvæðið er um 3 km á lengd og allt að 1 km á breidd og liggur í 1600 -1700 m hæð yfir sjó. Efst og syðst er Hveradalur, aðskilinn með Þrengslum frá Hveraskál [Neðri-Hveradal], sem er víð geil mót norðvestri að Dyngjujökli. Norðan í skarðinu er Gámur, einn öflugasti gufuhver landsins. Austan við Hveradal er skáli Jöklarannsoknarfélags Íslands í um 1750 metra hæð.
Gönguleið í Hveradal liggur frá Kverkjökli, skáhallt upp svonednda Löngufönn og áfram með brúnum upp í skála Jöklarannsóknafélagsins. Í slíka ferð þarf að ætla sér allan daginn fram og til baka. Ekki er ráðlegt að ganga þessa leið nema að vera í góðu formi og hafa allan varann á því að hætturnar á leiðinni eru margar. En þessi fjallganga er ógleymanleg!
Innst í Hveradal er allstórt lón, oft ísi lagt en tæmist stundum. Annað lón eða stöðuvatn er í ketilsigi rétt austur af skála Jöklarannsóknafélagsins. Er sigið um 600 m breitt og 100 m djúpt. Það myndaðist árið 1959 í eins konar sprengigosi í tengslum við jarðhita. Þá eru og hitur ofarlega í Skarphéðinstindi og víðar í Kverkfjöllum eystri.
Hveragil
Austan Kverkfjalla er jarðhita að finna í Hveragili á um tveggja km löngum kafla og eru þar víða 40 til 60 gráðu heitar laugar. Í gilinu eru fallegar kalkútfellingar og bólstraberg. Í ánni sem kemur undan Kverkjökli er vottur af jarðhitavatni sem veldur því að íshellir myndast yfir farveginum. Jarðhiti er undir skriðjöklinum og afrennsli er til hellisárinnar frá ketilssiginu í öskjunni efra.
(Helsta heimild: Vefur Umhverfisstofnunar)


