Vortúrarnir eru skemmtilegasti hluti sleðamennskunnar og meðfylgjandi myndir voru teknar í ferð sem farin var laust eftir miðjan maí á síðasta vori.
Ekið var af Öxnadalsheiði á miðvikudagskvöldi inn í Laugafell og gist þar fyrstu nóttina. Daginn eftir var haldið áleiðis austur á bóginn en ekið skemmra en ætlað var sökum bilana sem hrjáðu hópinn. M.a. þurfti einn að fá nýjan sleða sendann að heimann. Á föstudagsmorgni var vaknað í mikilli blíðu og þá ekið norðan Dyngjujökuls í Kverkfjöll og baðað í Hveragili. Þar snéru tveir úr hópnum heim á leið en aðrir óku áfram austur í Snæfell.
Laugardagurinn var notaður í skoðunarferðir um nágrennið í frábæru veðri. M.a. var ekið niður í Víðidal, litið niður í Geithellnadal og síðan brunað upp á Vesturdalsjökul, sem gengur út úr Vatnajökli. Farið var upp á Goðahnjúka og síðan snúið við niður Eyjabakkajökul, litið á íshellinn og ekið áfram um Eyjabakka að Laugarfelli til að fara í bað. Að því loknu var stefnt til baka í Snæfellsskála og brunað upp á Snæfellið áður en gengið var til kvöldmatar.
Á sunnudagsmorgni var skítaveður og var því brottför frestað fram á kvöld. Um 10 leytið um kvöldið var síðan lagt af stað heim og stóð á endum að síðuhöfundur rétt náði að komast á fund á Akureyri kl. 8 á mánudagsmorgni.
- Morgunmatur í Hjörvarsskála í Laugafelli. Jóhann Oddgeirsson, Hreiðar Hreiðarsson og Úlfar Arason sitja vinstra megin en Tryggvi Aðalbjörnsson og Jón Björnsson hægra megin.
- G. Hjálmarsson enn sofandi þótt komið sé langt fram á dag. Hvað skyldi hann hafa dreymt?
- Sleði Formannsins gaf óvænt upp öndina á milli Laugafells og Gæsavatna. Hér er hann borinn inn í forstofuna í Gæsavötnum til geymslu fram á sumar.
- Föstudagsmorgun í Gæsavötnum og nú er hann dottinn á með blíðu, G. Hjálmarssyni til mikillar ánægju.
- Hér er mikið í gangi og kerran hefur greinilega orðið eftir ofan í pyttinum.
- Jón Björnsson sullast yfir ársprænu norðan undir Dyngjujökli.
- Jói Oddgeirs og Tryggvi
- Við Gæsavötn. Úlfar búinn að lesta vel af bensíni.
- Smá viðhald.
- Sprækir karlar í fjallgöngu.
- Komnir á toppinn. Bjarki Árnason, Jón Björnsson, Guðmundur Hjálmarsson, Hreiðar Hreiðarsson, Úlfar Arason, Sigurgeir Steindórsson og Halldór Arinbjarnarson.
- Guðmundur á niðurleið.
- Að afloknu kvöldbaði í Laugarfelli, norðaustan Snæfells.












