Landaleitarmenn nefndist flokkur vaskra manna sem Þingeyingar gerðu út árið 1880 til að kanna svæðið umhverfis Ódáðahraun. Í þeirri ferð fundust m.a. Gæsavötn, kofarústirnar í Hvannalindum og fleiri merkir staðir. Sl. miðvikudag voru „Landaleitarmenn hinir seinni“ á ferð.
Tilgangur fararinnar nú var að kanna hvort finna mætti styttri akfæra leið í Gæsavötn en þá sem nú er notuð, þ.e. fyrir þá sem koma að norðan. Sem kunnugt er þarf nú að aka Sprengisandsleið suður að Tómasarhaga áður en beygt er norðaustur með Tungnafellsjökli áleiðis í Gæsavötn. Til fararinnar völdust fjórir vaskir menn úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslu og var gengin sem næst bein lína frá vaðinu yfir Langadrag á Gæsavatnaleið norðvestur að vegamótum Sprengisandsleiðar og Dragaleiðar, þ.e. þar sem ytri afleggjarinn í Laugafell tengist Sprengisandsleið. Samtals eru þetta um 25 km sem lagðir voru að baki á sex og hálfri klukkustund. Of snemmt er að fullyrða nokkuð um árangur ferðarinnar “en verið er að flokka og vinna þau gögn sem safnað var”, eins og sagt er á máli fagmanna. Einmuna veðurblíða var á hálendinu þennan dag og bærðist ekki hár á höfði. Meðfylgjandi myndir tók Smári Sig. af ferðafélögum sínum.
- Við upphaf göngunnar og menn fullir tilhlökkunar. Frá vinstri: Ingólfur Gíslason, Halldór Arinbjarnarson og Jóhann Björgvinsson.
- Fyrsta nestisstopp og að sjálfsögðu er tekið hraustlega til matar síns.
- Má nokkuð greina þreytumerki á þessum tveimur ef vel er að gáð?
- Síðuhöfundur gerir hádegismatnum góð skil. Skömmu áður þurfti að vaða á sem sumir kannast við undir nafninu “Jónsfljót” en það sést einmitt í baksýn.
- Jóhann hugar að matarbyrgðunum.
- Ingólfur bakari var og þjóðlegu nótunum og var með ýsu í nesti, ásamt að sjálfsögðu ýmsu góðgæti frá Kexsmiðjunni.
- Hér er farið að líða á gönguna og mönnum farið að hitna í hamsi.






