Að morgni miðvikudagsins 11. apríl 2001 lagði vaskur hópur manna af stað úr Eyjafirði áleiðis austur í Mývatnssveit. Þarna voru á ferð sjö harðsnúnir vélsleðakappar sem ætluðu að eyða næstu dögum á fjöllum. Dagarnir fyrir og um páska eru meðal þeirra sem veðurfræðingar varast að spá einhverju afgerandi um veðrið en þó leit út fyrir að það gæti orðið sæmilegt næstu daga. Gróf ferðaáætlun var að fara á sleðunum frá Skútustöðum í Mývatnssveit og aka suður í Kverkfjöll þaðan sem gera átti út. Auk þessara sjö var von á tveimur sunnlenskum höfðingjum sem lögðu á svipuðum tíma upp frá Vatnsfelli og ætluðu að hitta hópinn í Sigurðarskála í Kverkfjöllum.
Lagt í’ann
Langt var upp frá Skútustöðum upp úr hádegi og stefnan tekin suður á milli Bláfjalls og Sellandafjalls, sem blasa við sunnan Mývatnssveitar. Veður og færi voru eins og best gerist og sóttist ferðin vel. Ákveðið var að leggja smá lykkju á leiðina og fara að Ketildyngju, gosdyngju í Ódáðahrauni austur af Bláfjalli. Þar er mikill jarðhiti og á þessi staður sér merka sögu. Ketildyngja hét fyrrum Fremrinámur og þarna eru miklar brennisteinsnámur frá fyrri tíð. Var brennisteinninn fluttur á hestum til Húsavíkur og þaðan með skipi til Danmerkur. Þótti brennisteinn úr Fremrinámum sérlega góður og hreinn. Aðalnámurnar eru austan við gíginn Ketil í toppi dyngunnar og í sjálfum gígnum. Geysimikil hraun hafa runnið frá Ketildyngju og eru þau í ýmsum kvíslum. Mesta hraunið rann til norðvesturs, yfir mikinn hluta Mývatnsveitar, niður allan Laxárdal og Láxárgljúfur og breiddist yfir allan Aðaldal norður að Skjálfandaflóa. Er það a.m.k. 70 km langt og 330 ferkílómetrar. Talið er að það sé um 3.500 ára gamalt. (Sjá Landið þitt Ísland, bls. 218 og 241.)
Frá Ketildyngju var stefnan tekin á Hvammsfjöll, en þau rísa hæst í um 890 m yfir sjó suður af Kerlingardyngju. Með fjöllunum er oftast eina færa sleðaleiðin suður í gegnum Ódáðahraun að Dyngjufjöllum. Nú var farið á milli fjallanna í átt að Kollóttudyngju. Áð var við skálann Bræðrafell sem stendur suðaustan við dyngjuna og þaðan haldið að skálanum Dreka við Dyngjufjöll. Báðir þessir skálar eru í eigu Ferðafélags Akureyrar. Alltaf var sama blíðan og nægur snjór um allt. Nú var bara eftir síðasti leggurinn úr Dreka í Sigurðarskála við Kverkfjöll og fyrr en varði var hópurinn kominn á áfangastað.
Snjómokstur og saltfiskur
Eins og fram hefur komið er nú óvenju mikill snjór á Kverkfjallasvæðinu og var skálinn nánast á kafi. Tók nú við mikill snjómokstur. Byrjað var á að moka frá dyrum og gluggum og síðan ofan á gasgeymsluna. Reyndust það vera fullar tvær mannhæðir. Þá var gríðarlegt verk að moka upp kamarinn. Meðan á þessu stóð renndu Sunnlendingarnir tveir í hlað og flokkurinn því orðinn fullskipaður. Kapp var lagt að byrja sem fyrst að kynda upp en Sigurðarskáli er stórt hús og því tekur talsverðan tíma að ná upp góðum hita. Nú leið að kvöldi og ekki seinna vænna að fara að skella saltfiskinum í pottinn en á matseðlinum þetta fyrsta kvöld var salfiskur með kartöflum, rúgbrauði og hamsatólg. Tóku menn hraustlega til matar síns enda svangir eftir langan akstur og mikinn mokstur. Var ekki laust við að svefninn tæki snemma að sækja að sumum.
Baðað og baðað
Þegar vaknað var á fimmtudagsmorgun var hið besta veður en nokkuð dimmt yfir. Því var lítið skyggni til að keyra og var lífinu tekið með ró fram eftir morgni. Um hádegi tók að birta til og var þá rennt upp að jöklinum þar sem heit áin rennur undan honum. Var í snarhasti útbúin hin ágætasta baðaðstaða sem flestir nýttu sér og luku miklu lofsorði á. Ákveðið var að freista þess að komast austur fyrir Kverkfjallaranann, í Hveragil, en þar rennur heit á sem afskaplega gott er að baða sig í. Ferðin þangað gekk ekki átakalaust og kostaði marga króka en hafðist þó á endanum. Var þá ekkert því til fyrirstöðu að skella sér aftur í bað, enda fullir þrír tímar frá því að síðast var baðað. Að því loknu var rennt aftur heim í skála og fannst nú mun betri leið. Enn höfðu engir ferðamenn bæst við í skálann en vitað var að þangað stefndi talsverður hópur fólks sem von var á seinna um kvöldið. Matseðillinn hljóðaði upp á svínakjöt með sósu, kartöflum, rauðkáli og grænum baunum sem gerð voru góð skil. Seint um kvöldið og um nóttina fór að fjölga í skálanum en þá mættu á staðinn hópar af jeppafólki og nokkrir vélsleðar. Nú var einnig farið að hlýna í veðri og komin slagveðursrigning.
200 km lagðir að baki
Föstudagurinn langi rann upp bjartur og fagur og var hann tekinn snemma. Ekið var í Hvannalindir sem eru í Krepputungu, geiranum á milli Jökulsár á Fjöllum og Kreppu. Í Hvannalindum eru uppsprettur og lækir sem koma undan hrauninu. Einnig er þarna nokkur gróður. Árið 1880 fundust í Hvannalindum útilegumannakofar sem eignaðir eru Fjalla-Eyvindi. Í sömu ferð gengu menn þarna fram á hrossabein og er sá fundur talinn vera kveikjan að sögunni Heimþrá eftir Þorgils gjallanda en Þorgils var meðal þeirra sem voru í umræddum leiðangri 1880. Úr Hvannalindum var ekið áfram yfir Kreppu og í Grágæsadal. Þar er fallegur fjallaskáli en í dalnum er lón eða vatn sem Kverká fellur í skömmu áður en hún sameinast Kreppu. Áfram var haldið austur á bóginn áleiðis í Snæfell, yfir Kringisá og Jökulsá á Dal, komið við í sæluhúsi við Sauðá og ekið upp á Sauðahnjúka sem ná yfir 1.000 m hæð yfir sjó. Sóttist ferðin einkar vel enda færið enn mjög gott þótt það hefði þyngst. Í Snæfellsskála voru aðeins tveir menn á jafn mörgum jeppum en von var á fleira fólki seinna um daginn. Ekið var norður og austur fyrir Snæfell, að skálunum við Laugarfell. Þar var ákveðið að líta á íshellinn í Eyjabakkajökli og lá nú leiðin um hina frægu Eyjabakka austan Snæfells. Íshellirinn brást ekki vonum manna og var glæsilegur að venju. Var m.a. kveikt á neyðarblysi inn hellinum til að magna enn stemmninguna. Frá íshellinum var stefnan aftur tekin á Kverkfjöll, ekið yfir sporð Brúarjökuls og komið við í Hveragili til að fara í bað. Er komið var í Sigurðarskála voru um 200 km að baki frá morgninum og ekkert að vanbúnaði að hefja undirbúning fyrir kvöldmáltíðina, sem átti að vera sú síðasta í ferðinni. Nú hljóðaði matseðilinn upp á pönnusteiktar nautalundir með hinu ýmsa meðlæti og þóttust menn aldrei hafa bragðað annan eins mat, enda yfirstjórn matseldarinnar í höndum formannsins. Eftir margar smásögur var lagst til svefns en heldur var þó nóttin ónæðissamari en æskilegt getur talist.
Heimför frestað
Morguninn eftir lá fyrir að leggja af stað til baka niður í Mývatnssveit. Sunnlendingarnir ákváðu að slást í för og aka síðan suður yfir hálendið. Veður var þokkalegt fyrst í stað og gekk ferðin í Dreka ágætlega. Þar fór veðrið að versna og við Bræðrafell var komið leiðindaveður. Eftir um 3 km akstur frá Bræðrafelli var ákveðið að snúa við í skálann, enda orðið mjög blint að keyra og hættur sem geta víða leynst. Ekki er í kot vísað í Bræðrafelli auk þess sem svo vel hittist á að Bræðrafellsjarlinn sjálfur, Jakob Kárason, var með í för. Lífinu var tekið með ró fram eftir kvöldi og var hugmyndin að nota náttmyrkrið til að keyra heim. Þá nýtast ljósin af sleðunum, sem þau gera ekki þegar ekið er í blindu að degi til. Veðrið versnaði hins vegar þegar á kvöldið leið og því sæst á að fresta heimkomu um einn dag og gista í Bræðrafelli. Áttu menn þar góðan nætursvefn og vöknuðu í blíðuveðri daginn eftir, að morgni páskadags. Var nú hælum slegið við rass og ekið greitt niður í Mývatnssveit. Fóru tveir á undan til að ná í bensín þar sem ljóst var að mjög hafði gengið á bensínbirgðirnar daginn áður meðan menn þurftu að læðast áfram í leiðindaveðri.
Í Selinu á Skútustöðum fékk hópurinn sér hádegismat og þeir Sveinn og Leif keyptu bensín enda áttu þeir eftir að aka suður yfir hálendið að Vatnsfelli. Hinir sjö settust upp í bílana og óku inn í Eyjafjörð. Að baki var einkar vel heppnuð og eftirminnileg ferð. Yngva Ragnari í Selinu/Hótel Mývatn eru færðar bestu þakkir fyrir veitta aðstoð og einkar góða þjónustu á öllum sviðum.
- Lagt af stað frá Skútustöðum. Talið frá vinstri: Halldór Arinbjarnarson, Úlfar Arason, Jón Trausti Björnsson, Sigurgeir Steindórsson, Hreiðar Hreiðarsson og Jakob Kárson. Á myndina vantar Guðmund Hjálmarsson.
- Við Dreka á austurleið.
- Fjalladrottningin Herubreið blasir við.
- Þegar komið var að Sigurðarskála tók við mikill mokstur. Sigurgeir er hér að búa sig undir að moka frá útidyrunum og Hreiðar og Úlfar frá gluggunum
- Hreiðar baðar sig í Hveragili og á greinilega í vandræðum með að skorða sig í læknum.
- Sigurðarskáli í Kverkfjöllum.
- Í Grágæsadal er þessi vinalegi skáli.
- Hús við Sauðá.
- Áð á Eyjabökkum með Snæfellið í baksýn.
- Sveinn Sveinsson og Leif Österby.
- Hreiðar og Sigurgeir við munnann á íshellinum.
- Íshellirinn er stórkostleg náttúrusmíð.
- Sveinn, Leif og Hreiðar í eldamennsku í Sigurðarskála.
- Fagur páskadagsmorgun í Bræðrafelli.














