Bárðargötuferðalangar komu til byggða í gærkvöld eftir geysilega vel heppnaða ferð. Smári Sig. sendi ágrip af ferðasögunni svona rétt til að við hin getum fundið reykinn af réttunum.
Hófum ferðina við Lundarbrekku í Bárðardal. Þar var boðið upp á kaffi og harmonikkuspil að þjóðlegum sið. Fórum síðan upp í Réttartorfu og gistum þar.
Snemma morguns var ræst og boðið skyr og slátur í morgunmat. Í frábæru veðri og færi héldum við austan „Fljóts“ allt að Marteinsflæðu. Þar var tekið bað í Hitulaug áður en haldið var vestur yfir Fljótið að nýju. Fyrsta legg lauk síðan við Skjálfandafljótsbrú. Skotist var í Gæsavötn grillað, sofnað snemma og ræst fyrir kl. 07,00 og boðin egg og beikon í morgunverð.
Leggur 2 hófst fyrir kl 9,00 þar sem sá fyrsti endaði, enn og aftur í sól og blíðu. Haldið var í Vonarskarð og litið á gufubaðsaðstæður í Snapadal. Síðan haldið að Hamrinum í Vatnajökli. Ekki var áð fyrr en komist var inn að lóninu rétt undir Hamarsveggnum og margar myndir þrykktust á prent. Þá fikruðu menn sig áfram suður á bóginn með mörgum stoppum og mörgum myndum. Komið var að Jökulheimum undir kvöldmat og ekki seinna vænna en að drífa hangikjötið á borð og gera góð skil. Snemma var farið að sofa og enn fyrr á fætur. Hafragrautur á línuna með slátri.
Leggur 3 lá frá Jökulheimum upp á Tungnaárfjöll og yfir þau, niður norðan við Langasjó og yfir Skaftá. Sama sólarblíðan og ekki hreyfðist hár á höfði. Margt að sjá og skoða og margar myndir fuku. Haldið var austan Fögrufjalla allt að Hverfisfljóti og suður með Eldhrauni. Þessu fylgdu margir útúrdúrar á nálæg fjöll. Hvert sem litið var var hrikaleg fegurð og mikilfengleg sýn; Lakasvæðið, Sveinstindur, Hágöngur, Geirvörtur og Þórðarhyrna. Ekki skemmir að sjá Öræfajökul og Snæbreið sem bakgrunn við sjóndeildarhring. Að Núpi mætti flokkurinn á sama tíma og sólin skartaði kvöldgeislum sínum yfir Fljótsthverfið. Gist var á Geirlandi við Kirkjubæjarklaustur og þar galdraði kokkur ferðarinnar fram enn eina veisluna. Allir voru komnir í koju fyrir kl 22,00. Var þá formlegum leiðangri í spor Gnúpa-Bárðar lokið.
Að venju var ræst kl 7,00 morguninn eftir og haldið til fjalla í logni og glampandi sól. Farið var upp að Síðujökli og sem leið liggur að Geirvörtum og Hágöngum og þaðan yfir að Pálsfjalli. Þaðan upp á Háubungu og í Grímsvötn. Haldið var vestur fyrir vötnin, norður fyrir Skaftárkatlana og niður Köldukvíslarjökul með viðkomu á toppi Hamarsins. Í Gæsavötnum var síðan haldið uppteknum hætti með sameiginlegri kvöldmáltíð.
Á lokadegi ferðarinnar var eins og áður, logn sól og blíða. Þá var tekin stefnan á Tungnafellsjökul og stoppað á „Nafla heimsins“ eða á Háhyrnu og litið á dýrðina sem við blasti. Ekið var niður Hagajökulinn og vestur yfir Sandinn, upp Þjórsárjökulinn og upp að Hásteinum. Þaðan yfir á Miklafellið, þar sem stutt var í Laugafellsbað. Um kvöldmatartímann var lagt norður á bóginn. Skotist norður að Hraunárdal, farið niður Kerhólsöxlina og komið í bæinn eftir 860 km skreppitúr.
- Sem sjá má var veðrið ekkert slor.
- Matast í Gæsavötnum
- Tveir samstilltir og uppstilltir en ekki óstilltir.
- Opið húdd hjá Gísla.
- Grill og gaman. Greinlegt að menn klikkuðu ekki á smáatriðunum, sbr, kokkahúfuna.
- Óskaplega eru þessir menn snyrtilegir í sér.
- Tómas Ingi þó!
- Anton sullast áfram. Mikið grín, mikið gaman!







