Saga af þrautseigju, áræðni og dug – vortúr árið 2000

Það voraði snemma árið 2000. Snjólalög höfðu aldrei verið mikil þennan vetur og þegar kom fram í miðjan maí sáust varla fannir nema í allra, allra hæstu fjöllum. Bændur höfðu fyrir nokkru borið á tún sín og horfðu með velþóknun á nýgræðinginn æða upp úr jörðinni. Sleðamenn voru allir löngu búnir að afskrifa veturinn og höfðu komið fákum sínum í sumarhagana. Eða hvað? Við nánari athugun kom í ljós að til voru þeir menn sem neituðu að gefast upp fyrir sumrinu. Þeir skyldu í eina sleðaferð enn áður en búkkar yrðu smurðir og bensíntankar tæmdir fyrir sumarið. Þetta er sagan af þeim. Saga af þrautseigju, áræðni og dug, en þó fyrst og fremst af hæfilegri þrjósku.

Formaðurinn hringdi í menn til skiptist og brýndi þá til dáða. „Ja, Smári er alveg flugbeittur að drífa sig,“ sagði hann við Úlla áður en hann hringdi í Smára og sagði nákvæmlega það sama við hann. Nema nú var það Úlli sem var alveg flugbeittur að drífa sig og það strax. Þannig tókst honum að safna í harðsnúinn flokk sem samanstóð af mönnum sem kalla ekki allt ömmu sína (enda flestir á þeim aldri að þær góðu konur eru löngu farnar á annan og betri stað). „Já en er nokkur snjór strákar mínir,“ sögðu úrtöluraddirnar en menn létu það ekki á sig fá heldur efldust allir.

Mætt var upp á Öxnadalsheiði laust eftir miðjan dag á föstudegi og voru þar komnir formaðurinn Hreiðar, Smári, Úlli og Dórarnir Jónsson og Arinbjarnarson. Ekki var sérlega björgulegt að líta upp Kaldbaksdalinn og ljóst að eitthvað yrði að bíta saman jöxlum til að ljúka þessu verkefni. Sigurgeir hafði mætt til að hvetja menn til dáða en sjálfur komst hann ekki með af ófyrirsjáanlegum orsökum. „Þið verðið komir heim um kvöldmat,“ hljóðaði dómur þess sem átti að hvetja en ekki létu ferðalangar það á sig fá. Ljóst var að dalurinn væri ófær að austanverðu og því þurfti að byrja á að ferja sleðana yfir ána á stærstu jeppunum. Þar var svo tekið niður og menn fóru að tygja sig til brottfarar. Var ekki laust við að glott læddist fram á einstaka varir yfir því verkefni sem framundan var. Kom raunar í ljós að sumir höfðu ekki haft meiri trú á verkefninu en það að þeir voru varla með bensín og nesti til dagsins.

Síðan var lagt í´ann. Fyrirhugað var að þræða inn dalinn að vestanverðu og reyna að læðast á milli þúfnanna. Þegar nær dró kom hins vegar í ljós að það vantaði alveg snjóinn sem átti að vera á milli þeirra. Nú voru góð ráð dýr. Undirritaður var að reyna að snúa við en þar sem sleðinn var þunglestaður af bensíni og kosti til helgarinnar lét tækið illa að stjórn og stefndi til fjalls, beint upp öxlina vestan við dalinn. Og viti menn. Upp fóru bæði ökumaður og sleði og síðan fylgdu aðrir í kjölfarið. Meira að segja fimman hans Dóra en þó ekki fyrr en eigandinn hafði hótað henni öllu illu. Þegar upp var komið var leiðin greið inn Nýjabæjarfjall og var ekið í ágætum snjó í Bergland. Eftir það fór heldur að þynnast en þó ekki meira en svo að vandræðalítið var að þræða í Laugafell. Raunar þraut snjóinn nokkurn spöl frá húsinu en þar sem Haraldur Örn var þessa dagana að ganga á Norðurpólinn einn síns liðs þótti mönnum ekkert tiltökumál að rölta þennan spöl í skálann. Var síðan farið í laugina, etið, sagðar sögur og á endanum lagst til svefns.

Laugardagsmorgunn rann upp, bjartur og fagur. Fyrsta morgunverkið var að fara í laugina, enda menn ekki farið í bað síðan kvöldið áður. Að loknum morgunmat var farið að huga að bensínmálum og kom í ljós að fremur snjólétt var orðið umhverfis tankana. En ekki létu menn það á sig fá. Ekið var sem leið liggur í Sandbúðir og þaðan var stefnan tekin á Fjórðungsöldu. Upp á henni virtu menn fyrir sér útsýnið til allra átta og vorkenndu þeim sem sátu eftir heima að missa af dýrðinni. Ekki var annað að sjá ofan af Fjórðungsöldu en að sæmilega fært væri að Tungnafellsjökli og var því stefnan tekin á hann. Þó kom á daginn að leiðin var torsóttari en sýndist í fyrstu og var mikið um snúninga og þræðingar, eins og þessi MapSource-mynd sem tekin er úr GPS-tæki undirritaðs, sýnir glögglega,. Var flokkurinn sannarlega feginn að komast að jöklinum og þótti ástæða til að setjast niður og fá sér kaffi.

Ekið var upp á jökul í sömu veðurblíðunni sem fyrr og farið mikinn. Fljótlega opnaðist stórfenglegt útsýnið yfir Vonarskarð og Bárðarbungu og var ljóst að mönnum væru allir vegir færir að komast á Vatnajökul. Slíkt var þó ekki inn á ferðaáætlun enda leyfði tími og bensín vart svo langa ferð. Ekið var niður í Vonarskarð, inn í Snapadal og að hverasvæðinu. Þaðan var stefnan tekin aftur til baka en nú til vesturs sunnan við Jökuldal. Reyndist greið leið áfram vestur yfir Sprengisand og nánast engar þræðingar. Komið var aftur í Laugafell undir kvöld og þar var slappað af og hafður náttstaður.

Heimferð var daginn eftir og var hún tíðindalítil. Þó náði Smári að sökkva sér á einum stað sem vissulega lyfti ferðinni upp á enn hærra plan, sem þó var allhátt fyrir. Ekin var sama leið niður á Öxnadalsheiði og voru menn hæfilega skelkaðir á leið niður öxlina til baka. Var ljóst að snjórinn á Öxnadalsheiði hafði ekkert aukist meðan við vorum í ferðinni. Að baki var einstaklega góð og eftirminnileg ferð, ekki síst fyrir þær sakir hvað allir spáðu illa fyrir henni. En hér sannaðist einu sinni sem oftar að hæfilegt magn af þrjósku er ekki löstur á neinum manni. HA (Myndir: Smári Sig. og HA)

Leave a comment