Vorið 1987 fór hópur Eyfirðinga afar skemmtilega vorferð inn á hálendið. Hafa slíkar ferðir síðan verið árlegur viðburður í þessum hóp ef mögulegt hefur verið að koma þeim við. Ferðasagan var í grófum dráttum þannig að lagt var upp af Öxnadalsheiði og ekið í Laugafell til gistingar fyrsta kvöldið. Daginn eftir var byrjað á að fara túr á Hofsjökul áður en stefnan var tekin á Nýjadal. Þar var fyrir hópur Eyfirðinga sem kom að sunnan og ætlaði með hópnum norðuraf. Gist var í Nýjadal og ekið daginn eftir upp Köldukvíslarjökul og upp á Bárðarbungu. Þaðan var stefnan tekin í Grímsvötn og síðan aftur til baka í Nýjadal. Úr Nýjadal var farið í Laugafell til að gista og þaðan niður á Öxnadalsheiði. Veðurblíða var með eindæmum annan tímann enda ekki laust við að sleðar eyddu nokkru meira en ráð var fyrir gert. Myndir HA
- Mikil blíða og hiti var á Vatnajökli. Hér Óli fógeti að kæla Jakob Kárason og strákurinn hans Óla hjálpar til. Óli var þarna á ferð ásamt konu sinni og syni og voru þau á tveimur sleðum. Þau komu með Eyfirðingunum að sunnan og fóru aftur suðuraf.
- Baðað í Laugafelli. Myndin er tekin af hlaðinu á gamla skálanum (skála Ferðafélagsins) og eins og glöggir lesendur sjá þá var Hjörvarsskáli ekki kominn á þessum tíma. Ofarlega til hægri má sjá grunninn þar sem Hjörvarsskáli stendur nú og þeir sem þekkja til í Laugafelli sjá hversu mikið er búið að græða landið upp síðan myndin var tekin.
- Bensín tekið í Laugafelli. Á þessum tíma var aðeins einn tankur á staðnum.
- Hér var verið að leita að hentugri leið til að komast að skálunum við Nýjadal og þá náði Rúnar að sökkva sér við mikinn fögnuð viðstaddra.
- Við Grímsvötn í rjómablíðu.
- Í Laugafelli á heimleið. Talið frá vinstri: Tryggvi Aðalbjörnsson, Úlfar Arason, Bjarki Árnason, Gunnar Brynjólfsson, Hreiðar Hreiðarsson, Jakob Ólsen, Bragi H. Kristinsson, Jón Ingi Sveinsson og Rúnar Arason.





