Laugafell (879 m y.s.) og Laugafellshnjúkur (997 m y.s.) nefnast tvö fjöll úr móbergi, norðaustur af Hofsjökli. Sjást þau víða að, einkum hnjúkurinn sem er yngri og hærri og endar auk þess í toppi. Milli þeirra fellur Hnjúkskvísl en Laugakvísl norðan við fellið. Í ás norðvestur frá Laugafelli eru laugarnar sem það er kennt við. Þar hafa risið nokkur hús og þegar talað er um að fara í Laugafell er vísað til þeirra. Á myndinni hér til hliðar sér yfir staðinn með Laugafellshnjúkinn í baksýn. Lengst til hægri er sæluhús sem Ferðafélag Akureyrar reisti á árunum 1948-1950. Því er vel við haldið og hinn besti gististaður. Næst er Hjörvarsskáli í eigu hóps vélsleðamanna og þá snyrtihús Ferðafélags Akureyrar sem var í byggingu þegar þessi mynd er tekin. Þar er afar góð aðstaða, líkast til sú besta sem finnst á fjöllum. Lengst til vinstri er bústaður landvarðarins en Ferðafélagið er með gæslu á svæðinu á sumrin.
Aðdráttarafl Laugafells felst í heita vatninu sem þar sprettur upp en öll hús á svæðinu er hituð upp með því. Heitustu uppspretturnar eru tæplega 50ºC. Aðalbaðlaugin er á milli húsanna fyrir miðri mynd, í hvarfi við grasbakka. Þar er alger draumur að skríða í ylinn eftir skemmtilegan dag á fjöllum. Haustið 2000 tók vaskur hópur sleðamanna sig til og endurbyggði laugina. Má lesa nánar um það hér.
Norðvestur frá sæluhúsunum er dálítil þró í móhelluklöpp sem heitt vatn sprettur upp í. Þróin er um tveir metrar á lengd og svo víð að meðalmaður getur legið í henni og flýtur þá yfir hann. Þjóðsögn er um það að Þórunn á Grund novemberm1.jpg (59840 bytes) hafi dvalist með fólki sínu við Laugafell á meðan svartidauði gekk yfir og hafi hún látið klappa laugarkerið í klöppina. Sá galli er á þessari sögu að Þórunn fæddist fullri öld eftir að svartidauði geisaði. (Þess ber þó að gæta að mikil sóttarplága geisaði á landinu árið 1493.) Hins vegar bendir hún til þess að Grundarmenn hafi talið sér land inn að jökli. Önnur sögn nefnir þessa húsfreyju Þórunni ríku á Möðruvöllum en naumast munu vera til heimildir um hana. Meðfram laugunum og lækjum sem frá þeim renna eru valllendisbrekkur með ýmsu túngresi, þótt í um og yfir 700 m hæð sé.
Við Laugafell hafa fundist leifar fornra mannvirkja á bakka Laugakvíslar. Herma forn munnmæli að áðurnefnd Þórunn ríka hafi haft þar selstöðu en dvalist þó með allt fólk sitt þar meðan svartidauði gekk. Gamlir Eyfirðingar kölluðu tóttaleifar þessar Þórutóttarbrot og hafa lítilsháttar mannvistarleifar fundist þar en þar er jarðhitinn einna mestur á þessu svæði. Full þörf væri á að kanna minjar þessar til hlítar og friðlýsa þær.
Suðaustur frá Laugafelli er allstór flá, Fellshalaflá, og er það syðsti hestahagi áður en lagt er á Sprengisand að norðan. Í Laugafell er alltaf gaman að koma en þar er aðstaða öll hin besta fyrir ferðamenn, með góðu tjaldstæði og skemmtilegu umhverfi. Ekki þykir heldur af verri endanum af dýfa sér í bað eftir góðan göngutúr um nágrennið. Stutt er frá Laugafelli í aðra áhugaverða staði og má til dæmis nefna vötnin norðan við Hofsjökul þar sem upplagt er að skella sér í silungsveiði.

